„Við höldum í okkur andanum núna”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Prófessor í líftölfræði segir vísindamenn um allan heim læra eitthvað nýtt á hverjum degi varðandi þróun faraldursins. Líkönin eru víða orðin svo fullkomin að það er nánast hægt að fara í eins konar sóttvarnalæknisleik með því að haka í og úr við ákveðnar aðgerðir og sjá þannig hvernig smitin þróast. Hann er ánægður með samstöðu almennings og telur að grímuskyldan hafi skipt sköpum.

Ísland á góðum stað eins og er

Tvö innanlandssmit greindust í gær, en fimmtán á landamærunum. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, sagði í Síðdegisútvarpinu í dag að Ísland væri á mjög góðum stað í faraldrinum miðað við margar nágrannaþjóðir. 

„Við höldum í okkur andanum núna, því þetta er betra en maður átti von á. En þegar við vorum að spá síðast í nóvember, desember, þá vorum við bjartsýn á að það næðist góður árangur um jólin og það var bara nokkuð gott ástand þá. En eins og hefur gerst annarsstaðar, þá kom smá bakslag,” segir Thor og undirstrikar að allir séu bara enn að bíða og sjá. „Okkur hefur tekist að snúa á veiruna með aðgerðunum og það er erfitt að mæla eitt lykilatriði, því það blandast allt saman. Samkomutakmarkanir og grímunotkun kom sterk inn og fólk var að virða það og svo auðvitað smitrakningin. Það er svo margt sem hefur bjargað okkur.” 

Irishman og Landakot voru frávik

Thor segir að þó að við séum farin að slaka aðeins á, þá geti auðveldlega komið bakslag. 

„Það er margt fyrirsjáanlegt í þessu, en svo koma ófyrirsjáanleg atvik eins og það sem gerðist á Irishman. Landakot var rosalegt ólán, en líka frávik. Við eigum að geta séð hvernig þetta virkar nokkurn veginn, enda erum við að byggja á eldri reynslu.” 

Thor skellti sér á sinfóníutónleika nú í janúar og segir allt þar hafa verið til fyrirmyndar. Allir gestir voru með grímur og allt hólfað niður. 

„Við höfum lært mikið,” segir hann og er ánægður með samstöðu almennings í aðgerðunum. 

Sóttvarnalæknisleikur með líkönin

Varðandi líkön vísindamanna erlendis segir Thor margt áhugavert í þróun þar og líkönin orðin oft lygilega fullkomin. 

„Samkomubönn virðast virka svipað heilt yfir, til dæmis er 10 manna samkomubann mjög áhrifaríkt,” segir hann. „Líkönin eru sum orðin eins og stjórnborð og það er næstum því hægt að fara í eins konar sóttvarnalæknisleik, haka í og úr ákveðnum aðgerðum og sjá hvernig smitstuðullinn hækkar og lækkar eftir því. Ef það er mikið af smitum þá hreyfir maður ekki mikið, en ef það er lítið þá kannski prófar maður sig áfram og reynir aðeins á jaðarinn.”

Nú erum við orðin svo vön þessu og fljót að þekkja merkin, til dæmis hlutfall sem greinist utan sóttkvíar og hversu margir eru í farsóttarhúsi.

Bólusetningar ákveða framhaldið

Thor segir alla vísindamenn vera að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. „Við erum með til að læra af reynslu annars staðar frá með því að taka inn þróunina í mörgum löndum og setja það saman við okkur, til dæmis,” segir hann. „Og eftir nokkra daga vitum við meira um bólusetningarnar og þá er hægt að vita betur hvenær þetta verður búið.”