Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vesturlönd beita sömu efnahagsaðgerðum

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Ríkissjóðir vestrænna þjóða dæla fjármagni út í laskað hagkerfi í COVID-19 faraldrinum.  Slík hagfræði hefur löngum verið kennd við John Maynard Keynes, en kenningar hans hafa um áratugaskeið verið uppspretta deilna um hlutverk ríkisins í atvinnulífinu.

600 milljarða króna halli á tveimur árum

Ari Skúlason hagfræðingur  hjá Landsbankanum bendir á í nýjustu Hagsjá bankans að ríkisstjórnir á vesturlöndum eru samstíga í að beita hagstjórnarkenningum Keynes í faraldrinum, jafnt hægri sem vinstri stjórnir. 

Það eru erfiðir tímar í rekstri ríkissjóðs Íslands – útlit er fyrir samtals 600 milljarða króna halla á árunum 2020 og 2021.

Hvernig fer ríkissjóður að því að brúa það bil?  „Hann er náttúrulega búinn að því að einhverju leyti" segir Ari í viðtali við Spegilinn.  „Hann gerir það fyrst og fremst með skuldabréfaútgáfu, útgáfu víxla o.sv.frv.  Síðan er væntanlega ætlunin líka að sækja eitthvert fjármagn á erlenda markaði".

Þurfum að borga á endanum

Það kemur líka fram í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni að ríkissjóður ætlar að minnka inneign sem hann á í Seðlabankanum. Það á að taka peninga út úr gamla Íbúðalánasjóðnum sem er með fullt af peningum vegna útlána sem hafa verið greidd upp. Þannig að allt í allt þá verða þessar aðferðir notaðar og kemur kannski á óvart að það verður ekkert svakalega mikil skuldabréfaútgáfa á þessu ári. Hún var töluverð á síðasta ári. En þetta verður ekkert sérstaklega erfitt vegna þess að það eru góð kjör á mörkuðum og það gengur örugglega ágætlega að fjármagna þetta.  Svo eigum við auðvitað eftir að borga þetta með tíð og tíma". 

Leggst á herðar heimila og fyrirtækja

Kemur það til með að ganga vel?

„Já. Það gerir það auðvitað miðað við það að allt fari i lag aftur. Það gerðist svipað árið 2008 þegar ríkissjóður eyddi miklum fjármunum til að bjarga bankakerfinu, en þá fékk ríkissjóður peningana til baka og vel það úr stöðugleikaframlögum o.sv.frv. En nú verður ekkert svoleiðis. Nú er þetta skuld sem leggst á herðar atvinnulífsins í landinu og heimilanna. Við verðum náttúrulega að borga hana, sem þýðir þá að öðru jöfnu að það verður minna til skiptanna í annað í ansi mörg ár. Það verða engir happdrættisvinningar sem koma upp eins og gerðist með stöðugleikaframlögin".

Samhugur á vesturlöndum að ríkissjóður hjálpi

En ríkissjóður hleypur all ríflega undir bagga á þessu ári eins og 2020?

„Hann gerir það. Og það er nýtt og kannski öfugt við það sem verið hefur áður. Við munum eftir umræðunni eftir fjármálakreppuna um Grikkland, Spán og fleiri lönd þar sem heimtað var að dregið yrði saman, sparað o.sv.frv. Nú virðist vera orðinn samhugur um það, allavega í hinum vestræna heimi, að ríkissjóður verði að hjálpa okkur við að sigla í gegnum þetta. Markaðurinn ræður ekki við það. Og það að herða sultaról við svona aðstæður gerir stöðuna bara verri.

Þetta er pólitík sem búið er að rífast um í mörg ár, en nú virðist það vera þannig að allir eru sammála um að ríkissjóður verður að axla byrðina. Kreppur hafa yfirleitt haft í för með sér mikinn niðurskurð. Niðurskurð á þjónustu, tekjuminnkun o.fl. Hjá okkur gildir það fyrir ansi marga, en ekki næstum því alla. Það má segja að megin hlutinn af samfélaginu heldur áfram að lifa eins og verið hefur". 

Allir nota hagfræðikenningu Keynes

Hvernig samræmist þetta þekktum hagfræðikenningum?

„Þetta er náttúrulega einhver mesta deila sem verið hefur uppi í hagfræðinni á síðustu áratugum. Þetta byrjar upp úr kreppunni í kringum 1930. Það er fyrst of fremst breskur hagfræðingur, John Maynard Keynes, sem var með þá stefnu í kreppum og krepputímum að þá yrði ríkið að koma að með hressilegum hætti til að skapa störf vegna þess að frjálsi markaðurinn réði ekki við það.

Um þetta er búið að deila algjörlega síðan. Neoklassísk hagfræði er á móti. Ef maður einfaldar þetta þá er hún tiltölulega hægri sinnuð. Keynesisminn  hins vegar vill beita ríkisafskiptum. Og núna er þetta orðið þannig að við erum eiginlega öll Keynesistar. Meira að segja þær ríkisstjórnir, sem maður myndi segja að væru lengst til hægri, beita ríkissjóði ekkert síður heldur en aðrar þjóðir. Við getum tekið Bandaríkin og Bretland sem dæmi þar sem ríkissjóður er að taka á sig álíka stórt hlutverk og hér".

Margret Thatcher hefði ekki skrifað upp á þetta?

„Nei. Hún hefði aldrei gert það. Ekki Ronald Reagan  heldur. Kannski hefðu þau gert það, ef þau hefðu verið uppi á þessum tíma núna. En þetta hefði verið algjörlega óhugsandi í þeirra stjórnartíð".

Stefnubreyting hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Bregðast ríkisstjórnir í hinum vestræna heimi við á svipaðan hátt og ríkisstjórn Íslands?

„Já þær gera það.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur oft verið talinn frekar íhaldssamur og grimmur í kreppum við þá sem hann er að hjálpa, en nú er ráðleggingin frá sjóðnum og OECD sú að ríkissjóður verður að taka byrðina og hjálpa okkur yfir hjallann. Svo er það auðvitað þannig að þegnarnir og fyrirtækin koma til með að taka á sig byrðina og greiða af þessu. Ríkissjóður getur ekki tekið neitt upp úr einhverjum pokum. Þetta erum bara við. En hann hjálpar til við að komast í gegnum skaflinn". 

Fjárfesting þarf undirbúning

En í hvað er skynsamlegt að peningar úr ríkissjóði fari í svona ástandi?

„Það hefur alltaf verið sagt, og það sagði Keynes líka á sínum tíma, að það þarf að skapa störf. Helst með því að búa til eitthvað sem skapar eitthvað í framtíðinni og þá berast böndin oftast að því sem við köllum innviði. Byggja vegi, brýr og opinberar byggingar sem eru nauðsynlegar. Það er líka alltaf sagt á tímum eins og núna, þegar fjárfesting í einkageiranum er minni, þá ætti ríkisstjórnin og stjórnvöld að koma meira að. Það hefur verið stefnan hér og búið að tala mikið um það og búið að veita miklum peningum í það. 

Aðgerðirnar sjálfar hafa hins vegar látið bíða eftir sér, en koma væntanlega vegna þess að þegar talað er um orðið „fjárfestingarátak" þá hvarflar að manni að fjárfesting er ekki eitthvert átak.  Fjárfesting þarf undirbúning og við erum í þeirri stöðu að það þarf umhverfismat o.fl.,  þannig að þetta gengur ekkert svakalega hratt, en kemur örugglega á endanum" segir Ari Skúlason.