Trump þvertekur fyrir að hafa hvatt til árásar á þingið

12.01.2021 - 17:49
Mynd: EPA-EFE / BLOOMBERG POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þvertók fyrir það í dag að orð sem hann lét falla á fjöldafundi stuðningsmanna sinna í Washington í síðustu viku hefðu orðið til að kynda undir árásina á þinghúsið.

„Við viljum ekkert ofbeldi, aldrei ofbeldi,“ sagði Trump. „Við viljum svo sannarlega ekkert ofbeldi.“

Þetta sagði Trump við upphaf ferðalags síns til Texas í dag. Trump hefur sætt gagnrýni fyrir að hvetja fólk til árása á þingið með ræðu sinni. Kallað hefur verið eftir afsögn hans eða brottvikningu. Múgurinn gekk að þinghúsinu skömmu eftir að forsetinn lauk máli sínu og braut sér leið þangað inn. Fimm létust.

Trump sagði að fólk hefði greint ræðu sína í fjölmiðlum og komist að þeirri niðurstöðu að orð hans hefðu verið algjörlega við hæfi, og að ef litið væri til orða annarra stjórnmálamanna í kringum mótmæli síðasta sumar þá væru þau orð mikið vandamál.

Um ákæru til embættismissi sem nú er til umfjöllunar í bandaríska þinginu sagði Trump: „Þetta er bara framhald mestu nornaveiða í sögu stjórnmála. Þetta er fáránlegt. Algerlega fáránlegt.“

„Ákæran veldur ofboðslegri reiði og þið valdið henni. Og þetta er raunar skelfilegur hlutur sem þau eru að gera.“

Líklega fyrstur til að vera ákærður tvisvar

Trump verður fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er tvisvar ákærður til embættismissis í forsetatíð sinni, ef fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkir ákæruna á fundi í kvöld. Ákæran gengur þá til öldungadeildar þingsins þar sem hún þarf stuðning aukins meirihluta þingmanna. Það þykir hins vegar ólíklegt að slíkur stuðningur sé meðal Repúblikana sem stýra öldungadeildinni.

Í kvöld mun fulltrúadeildin fyrst greiða atkvæði um þingsályktunartillögu þess efnis að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, beiti 25. viðauka stjórnarskrárinnar. Með því getur varaforsetinn hvatt saman ríkisstjórn landsins og ásamt henni lýst Trump vanhæfan til að gegna embættinu. Hann tæki þá sjálfur við, þar til Joe Biden verður svarinn í embætti 20. janúar.

Pence er sagður ekki hugnast þessi leið. Þess er vænst að þingsályktunartillagan um þessa leið verði ekki samþykkt.

Forsetinn hvatti til þess í ræðu að stuðningsmenn hans myndu safnast saman 6. janúar, daginn sem atkvæði kjörmanna í bandarísku forsetakosningunum voru talin í þinghúsinu. Forsetinn hvatti stuðningsmenn sína til þess að gera áhlaup á þinghúsið. Þessu framfylgdu þeir. Fimm létust þegar múgurinn ruddist inn í þinghúsið og komst inn í þingsalinn og á skrifstofur þingmanna.

Trump var á leið til Texas í dag til þess að virða fyrir sér múrinn sem byggður hefur verið á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.