Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump og Pence funda í fyrsta sinn eftir árásina

epa08931300 (FILE) - US President Donald J. Trump (R) turns over the podium to US Vice President Mike Pence (L) during a news conference in the Rose Garden of the White House in Washington, DC, USA, 04 January 2019 (reissued 11 January 2021). According to reports on 11 January 2021, US House Speaker Nancy Pelosi urged US Vice President Mike Pence to oust US President Trump by invoking the 25th amendment, or said the Democrats would move forward with an impeachment.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pence varaforseti töluðu saman í dag fyrsta sinni eftir árás áhangenda forsetans á þinghúsið. CNN fréttastofan hefur þetta eftir tveimur embættismönnum í Hvíta húsinu. Demókratar á Bandaríkjaþingi þrýsta mjög á Pence að víkja Trump úr embætti forseta.

Trump og Pence ræddu saman á forsetaskrifstofunni, fóru yfir kjörtímabilið sem að baki er og vikuna framundan, að sögn heimildamanns CNN.

Heimildamaðurinn segir þá hafa staðhæft í samtali sínu að þau sem réðust til inngöngu í þinghúsið séu ekki fulltrúar hreyfingarinnar sem kölluð er Bandaríkin í fyrsta sæti, eða America First.

Þeir munu hafa heitið því að sinna störfum sínum það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Haft er eftir heimildamanni úr innsta hring varaforsetans að ráðgjafar hans hafi lagt að honum að lægja ófriðinn við forsetann. Pence þurfi að sýna fram á að ríkisstjórnin sé starfhæf.

Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings lögðu fram ályktun í þinginu í dag þar sem skorað er á Mike Pence að víkja forsetanum úr embætti. Atkvæði verða greidd um tillöguna á morgun.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, kynnti jafnframt frumdrætti að ákæru á hendur forsetanum fyrir embættisglöp. Þingið gefur þannig Pence tvo valkosti, að víkja forsetanum en að ella verði hann ákærður.