
Trump og Pence funda í fyrsta sinn eftir árásina
Trump og Pence ræddu saman á forsetaskrifstofunni, fóru yfir kjörtímabilið sem að baki er og vikuna framundan, að sögn heimildamanns CNN.
Heimildamaðurinn segir þá hafa staðhæft í samtali sínu að þau sem réðust til inngöngu í þinghúsið séu ekki fulltrúar hreyfingarinnar sem kölluð er Bandaríkin í fyrsta sæti, eða America First.
Þeir munu hafa heitið því að sinna störfum sínum það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Haft er eftir heimildamanni úr innsta hring varaforsetans að ráðgjafar hans hafi lagt að honum að lægja ófriðinn við forsetann. Pence þurfi að sýna fram á að ríkisstjórnin sé starfhæf.
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings lögðu fram ályktun í þinginu í dag þar sem skorað er á Mike Pence að víkja forsetanum úr embætti. Atkvæði verða greidd um tillöguna á morgun.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, kynnti jafnframt frumdrætti að ákæru á hendur forsetanum fyrir embættisglöp. Þingið gefur þannig Pence tvo valkosti, að víkja forsetanum en að ella verði hann ákærður.