Þrjú þúsund ungmenni flosna upp úr íþróttum eftir COVID

12.01.2021 - 19:58
Innlent · COVID-19 · UMFÍ
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Þátttaka barna 10 ára og eldri í skipulögðu íþróttastarfi hér á landi hefur ekki verið minni í þrjú ár. Börnum og unglingum í skipulögðu íþróttastarfi fækkaði um þrjú þúsund milli ára og segir Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ að æfingabann vegna faraldursins sé líklegasta skýringin.  

Íþróttahreyfingunni hefur verið fyrirskipað að stöðva æfingar og keppnir nokkrum sinnum vegna farsóttarinnar. Forsvarsfólk hennar hefur haft áhyggjur af að iðkendur, sér í lagi ungt fólk, sé að flosna upp úr starfinu vegna þess. Og það hefur komið á daginn. Samkvæmt þátttökuskráningum úr kerfi sem lang flest íþróttafélög nota hefur iðkendum undir 18 ára fækkað um þrjú þúsund milli ára. 2019 voru samtals 53 þúsund iðkendur skráðir, en um áramótin núna voru 50 þúsund skráðir. Brottfallið er meira hjá strákum en stelpum.

„Þetta er COVID. Ég held að það sé einfaldasta útskýringin sem við höfum í augnablikinu,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ. „Auðvitað höfum við líka heyrt raddir um það að það séu börn og ungmenni sem eru að mæta á æfingar sem eru ekki búin að ganga frá skráningum en umfangið er það mikið að það skýrir ekki allt.“

Rétt er að árétta að íþróttafélögin skila opinberum tölum um þátttöku í apríl, en íþróttahreyfingin hefur fylgst með þróuninni í skráningarkerfinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Risastór verkefni að ná krökkunum til baka

Ef litið er á þátttöku eftir aldri þá er fjölgun á milli ára meðal yngri aldurshópana, frá tveggja til sjö ára. Appelsínugula línan sýnir síðasta ár. Hins vegar fækkar átta ára og eldri iðkendum. Það er þekkt mynstur að það dregur úr skipulögðu íþróttastarfi eftir því sem krakkar færast inn á unglingsárin en það hefur ekki verið minni þátttaka meðal níu ára og eldri í þrjú ár.

Stór hluti unglinga hefur ekki mátt æfa í þrjá mánuði. „Þetta er sá aldurshópur sem hefur verið lengst frá skipulögðum æfingum þannig það þarf ekkert að koma okkur á óvart að það er minnst skráning hjá þeim. Það er stórt og viðamikið verkefni á landsvísu að ná árangri í því að ná þeim aftur inn í starfið. En við fögnum því að þau mega fara aftur af stað á morgun.“