Íþróttahreyfingunni hefur verið fyrirskipað að stöðva æfingar og keppnir nokkrum sinnum vegna farsóttarinnar. Forsvarsfólk hennar hefur haft áhyggjur af að iðkendur, sér í lagi ungt fólk, sé að flosna upp úr starfinu vegna þess. Og það hefur komið á daginn. Samkvæmt þátttökuskráningum úr kerfi sem lang flest íþróttafélög nota hefur iðkendum undir 18 ára fækkað um þrjú þúsund milli ára. 2019 voru samtals 53 þúsund iðkendur skráðir, en um áramótin núna voru 50 þúsund skráðir. Brottfallið er meira hjá strákum en stelpum.
„Þetta er COVID. Ég held að það sé einfaldasta útskýringin sem við höfum í augnablikinu,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ. „Auðvitað höfum við líka heyrt raddir um það að það séu börn og ungmenni sem eru að mæta á æfingar sem eru ekki búin að ganga frá skráningum en umfangið er það mikið að það skýrir ekki allt.“
Rétt er að árétta að íþróttafélögin skila opinberum tölum um þátttöku í apríl, en íþróttahreyfingin hefur fylgst með þróuninni í skráningarkerfinu.