Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Þegar ég les lítið þá er ég í einhvers konar lægð“

Mynd: Kveikur / RÚV

„Þegar ég les lítið þá er ég í einhvers konar lægð“

12.01.2021 - 14:45

Höfundar

Kári Stefánsson lítur á bókmenntir ekki einungis sem uppsprettu ánægju og hugmynda – heldur sem einhvers konar skjól. „Ég held að bókmenntir hafi verið sá staður sem ég flúði á þegar að lífið væri ekki nákvæmlega eins og ég vildi að það væri.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, les reiðinnar býsn af bókum. Hann hefur mikla ástríðu fyrir bókmenntum og segist lesa meir eftir því sem annir í daglegum störfum aukast. „Þegar ég les lítið þá er ég í einhvers konar lægð.“

Hann fékk að hvíla sig á tali um erfðavísindi, veirur og bóluefni í Víðsjá á Rás 1, sem hefur væntanlega verið kærkomið. „Ég lít á lestur bókmennta kannski að nokkru leyti eins og sumir líta á innhverfa íhugun,“ segir hann. „Ég er að búa til pláss fyrir sjálfan mig þar sem ég er í skjóli fyrir því sem annars ergir mig.“ 

Góðar bókmenntir þarf til að rækta góða vísindamenn

Kári hefur gripið til ýmissa aðferða til að réttlæta þann tíma sem hann ver í bóklestur. Það gladdi hann því mjög þegar hann las bókina Fearful Symmetry eftir kanadíska bókmenntafræðinginn Northrop Frye sem barðist fyrir því í kanadísku menntakerfi að góðum bókmenntum væri snemma otað að fólki. 

„Hann meðal annars hélt því fram að ef þú ætlaðir að rækta hóp af góðum vísindamönnum þá ættirðu ekki að byrja að kenna þeim raungreinar snemma, þú ættir að láta þá lesa góðar bókmenntir. Vegna þess að tungumálið sé tækið sem við hugsum með og til þess að þjálfa menn í að hugsa nýjar hugsanir þá sé best að láta menn lesa mikið af góðum bókmenntum. Ég hef hangið á þessu þegar ég hef verið gagnrýndur fyrir að eyða of miklum tíma í að lesa bókmenntir.“

Náttúruljóð og tregi

Kári sækir helst í bandarískar og breskar bókmenntir og þá helst ljóðabækur. „Uppáhaldsrithöfundar mínir breytast svolítið frá einu tímabili til annars,“ segir hann. Hann heldur mjög upp á ljóðskáldið Franz Wright, sem fékk Pulitzer-verðlaunin 2004 fyrir bókina Walking to Martha‘s Vinyard, líkt og faðir hans, James Wright, sem fékk þau 1972.

„Hann skrifar knöpp, flott og skemmtileg ljóð. Er mjög ólíkur föður sínum í stíl, yrkir töluvert um föður sinn engu að síður, föður sem yfirgaf fjölskylduna þegar hann var kornungur. Það er mikill tregi í þessu, í ljóðum sínum reynir hann að sannfæra mann stöðugt um að hann sé kominn yfir þetta en hann komst aldrei yfir þetta.“

Annað bandarískt ljóðskáld sem Kári er hrifinn af er Mary Oliver „Hún yrkir mikið um náttúruna. Ofboðslega falleg, mjúk og þýð ljóð ... Ég er mjög elskur að hennar bókum. Fallegar og flottar bækur. Magnað ljóðskáld.“

Hann reynir að kaupa allar ljóðabækur sem gefnar eru út á Íslandi. „Ljóðið er heppileg neyslueining fyrir mann sem vinnur mikið. Maður getur sest upp í rúm og lesið eitt til fjögur ljóð. Maður þarf ekki að halda tengslum við eins og maður þarf þegar maður er að lesa skáldsögur sem maður kemst kannski ekki í eins títt og maður vildi.“

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Kára Stefánsson í Víðsjá á Rás 1.