Sendi peninga til elskhugans sem reyndist ekki vera til

Mynd: Stocksnap / Andrew Pons

Sendi peninga til elskhugans sem reyndist ekki vera til

12.01.2021 - 11:44

Höfundar

Íslensk kona sendi ókunnugum, erlendum manni sem hún kynntist á internetinu yfir tvær milljónir króna. Konan taldi sig vera að hjálpa manni sem elskaði hana og ætlaði að byrja nýtt líf með henni. Hún bað eiginmann sinn um skilnað en þá komst hann að því, með aðstoð lögreglunnar, að erlendi maðurinn var í raun ekki til heldur var um skipulagða glæpastarfsemi að ræða.

Það eru svo margar leiðir til að finna ástina. Rafrænar ástir eru reglan frekar en undantekningin í dag. En það gleymist stundum að þeim fylgja ákveðnar hættur. Anna Marsibil Clausen ræddi við íslenska konu sem kýs að njóta nafnleyndar um reynslu hennar af ást sem hófst á internetinu en fór á versta veg. Hún sagði sögu sína í Ástarsögum á Rás 1.

Skortur á rómantík í hjónabandinu

Fáir í kringum konuna vissu af þessu ástarsambandi sem hún stofnaði til og innst inni glímir hún enn við skömm yfir að hafa trúað manninum sem hún kynntist. Það var árið 2019 sem samskipti þeirra hófust og á þeim tíma var hún ósátt við sjálfa sig og fannst hún ekki vera að fá það út úr lífinu sem hún vildi. „Ég er mikil tilfinningavera og það vantaði alla rómantík,“ segir hún. Hjónabandið einkenndist af samskiptaleysi og konan fann að hún vildi meira.

Virkaði ósköp venjulegur

Hún varði töluverðum tíma á samskiptamiðlum á borð við Facebook og Instagram. Gjarnan fékk hún vinabeiðnir frá ókunnugum og oftast lét hún vera að samþykkja þær. En svo kom ein sem hún freistaðist til að samþykkja og hún og ókunnugur maður, sem sagðist vera frá Belgíu, fóru að spjalla saman. „Hann virkaði ósköp venjulegur en eiginlega strax eftir samþykki á þessari vinabeiðni fór hann fram á að við myndum spjalla í gegnum Whatsapp. Þannig fór þetta að þróast.“

Sagðist langa að stofna lítið fyrirtæki

Maðurinn sagðist vera frönskumælandi en að hann notaði þýðingaforrit svo samskiptin fóru fram á íslensku. Þau ræddu sín á milli allt milli himins og jarðar, allan daginn alla daga, og konunni fannst sem hún væri að kynnast þessum dularfulla manni nokkuð vel. Hann sendi henni mynd, sem hún taldi vera af honum, og hún sendi mynd af sér til baka. Hann sagðist vera fluttur til Belgíu aftur eftir að hafa starfað í París um árabil í fjármálageiranum en farið illa úr viðskiptum og misst allt. „Einhvern tíma í þessu ferli sagði hann mér að sig langaði að stofna lítið fyrirtæki, svona varahlutaverslun fyrir bíla,“ rifjar hún upp.

„Ég var ástfangin“

Maðurinn hafði talað um hve gott það væri að fá smá styrk til að koma fyrirtækinu á fót og fljótlega bauðst hún til þess að aðstoða. „Ég var bara grunlaus, ég var gjörsamlega græn í gegn,“ segir hún.

Í kjölfarið þróast samskipti þeirra út í að verða rómantísk. „Hann segir mér að tilfinningarnar til mín séu þess eðlis að hann vilji að þetta gangi lengra. Hann sagði í raun allt sem konur vilja heyra. Mjög rómantískt og fallegt allt saman.“

Maðurinn lýsti loks yfir áhuga sínum á að gera rómantísk framtíðarplön með henni. Þau töluðu um hvar þau ætluðu að búa og hvernig lífið yrði þegar þau yrðu loksins saman. „Eins og ég segi var ég rúin allri skynsemi,“ segir hún. „Ég var ástfangin. Það hafði enginn talað svona við mig áður.“

Einn daginn tilkynnir maðurinn henni að hann þurfi að fara til Afríku að selja þar bíla. Hann sendir henni mynd af bílum sem búið var að setja í gám og sagði henni að þeir væru á leiðinni til Búrkína Fasó og hann með.“

Segist hafa lent í þjófnaði og árás

Aftur sendir konan honum upphæð í gegnum Moneygram til að hjálpa honum að ná markmiðum sínum. Hann sendi henni mynd af sér inni á flugvelli og sagðist myndu leysa upphæðina út þegar á áfangastað væri komið. En svo nær hún engu sambandi tímunum saman. „Ég er farin að hafa áhyggjur eins og gengur og gerist,“ segir hún.

Loks hefur hann samband í gegnum óþekkt númer og segist hafa lent í árás, verið rændur og að hann væri kominn á spítala. Að öllu hafi verið stolið af honum, peningunum, skilríkjunum, og símanum. „Mér leið illa því mér var farið að þykja vænt um þennan mann í gegnum allt okkar spjall,“ segir hún. Maðurinn tjáir henni að læknirinn hafi lánað sér símann sem hann hringdi úr en biður hana auk þess að skipta um símanúmer. „Ég taldi það vera af umhyggju um mig,“ segir hún. „Að þetta glæpagengi gæti reynt að ná á mig og haft út úr mér eitthvað.“

Gat ekki hugsað sér annað en að hjálpa honum

Hún skipti um símanúmer og daginn eftir hefur hann samband og segist þurfa að fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hann hefði hlotið. En aðgerðin kostaði peninga sem hann ætti ekki. „Ég náttúrulega gat ekki hugsað mér annað en að reyna að hjálpa honum, sem ég og gerði,“ segir hún. Konan var enn að ganga á spariféð en átti eftir að leiðast út í lántökur til að geta komið manninum til hjálpar.

Eftir rúma viku segist hann hafa losnað af sjúkrahúsinu og að læknirinn hefði útvegað sér gistiheimili. Hann átti afgang frá því hann borgaði fyrir aðgerðina en fór loks að biðja um meiri peninga fyrir mat auk þess sem læknirinn hefði hvatt hann til að stunda líkamsrækt sem væri rétt hjá og að hann þyrfti peninga fyrir henni líka. „Ég, öll af vilja gerð, bjarga málunum,“ segir konan.

Tekur skyndilán til að greiða aðgerð og líkamsrækt

Þegar hann kveðst svo þurfa að fara í aðra kostnaðarsama aðgerð lendir konan í vandræðum því spariféð er uppurið. Þá bregður hún á það ráð að taka lán upp á 500 þúsund krónur í gegnum skyndilánaþjónustu og það gekk greiðlega í gegn. Hún fór í bankann og bað um aðstoð til að leggja upphæðina inn á lækni mannsins.

Áður en þjónustufulltrúi bankans millifærði fjárhæðina fyrir hana reyndi hann að ganga úr skugga um að fjárhæðin væri á leið í réttar hendur. „Ég var spurð að því þar hvort ég þekkti þennan mann og ég sagði já. Ég var svona fínlega vöruð við en áfram hélt ég samt,“ segir hún.

Íhugaði að selja bílinn

Maðurinn hélt áfram að biðja um peninga og henni fannst hún hafa gengið svo langt nú þegar að hún gæti ekki byrjað á því nú að neita honum um aðstoð. Hún brá næst á það ráð að taka lán út á bílinn sinn sem var skuldlaus. „Mér þótti það frekar erfitt en ég gerði það samt. Það gekk í gegn á Þorláksmessu en það var samt ekki nóg, það vantaði meira,“ segir konan sem fór að íhuga að selja bílinn sinn.

Vildi byrja nýtt líf með henni í Svíþjóð

Rómantíkin hélt áfram á milli peningabeiðna. Hann vildi plana hvar þau ættu að búa í framtíðinni, vildi jafnvel koma til Íslands en konan ráðfærði honum frá því, hún vildi frekar byrja nýtt líf annars staðar. Þá ákváðu þau að flytja saman til Svíþjóðar. „Ég þekkti aðeins til þar því vinkona mín býr þar úti. Hann var alveg til í að fallast á það.“

Nafnið finnst hvergi á netinu

Svo kom að því að maðurinn fór að pressa á hana að biðja eiginmanninn um skilnað svo þau gætu formlega tekið saman. Hún átti erfitt með að telja í sig kjark en lét loksins til skarar skríða. „Hann tók ekki vel í þetta. Hann brotnaði ekki eða neitt svoleiðis en ég sá alveg hvernig honum leið.“ Hún segir honum að hún hafi kynnst öðrum manni og hann bregður á það ráð að kanna málin til að komast að því hver hefði verið að tala við hana. „Ég segi honum nafnið á honum og það er farið í netrannsóknir. Nafnið finnst ekki á netinu.“

Eiginmaðurinn fer til lögreglunnar

Eiginmaðurinn hafði samband við lögregluna og tjáði henni svo að hún hefði verið boðuð í skýrslutöku. Það fannst henni alls ekki auðvelt. „Fyrst vildi ég ekki trúa. Þetta gæti ekki verið svona,“ segir hún. Þegar hún fór að átta sig brotnaði hún saman. „Mér fannst bara tilveran hrynja. Ég var búin að mála mig út í horn gagnvart manninum mínum og hans fólki.“

Lögreglan sagði henni að þarna væri á ferðinni skipulögð glæpastarfsemi sem léki sér að því að svíkja fé út úr fólki á þennan hátt. Hún hafði heyrt um slíkt áður. „Ég vissi að það væri verið að ná peningum af kannski sérstaklega konum. En ég einhvern veginn spáði aldrei í það þegar ég lendi í þessu sjálf.“

Kvaddi hann og bað lögregluna að eyða forritinu

Hún hafði einu sinni áður reynt að slíta samskiptum við manninn en þá hafði hann hótað sjálfsvígi og hún hætti við. Eftir fundinn með lögreglunni vissi hún að nú yrði þessu að ljúka fyrir fullt og allt. Hún kvaddi hann og bað svo lögregluna að hjálpa sér að loka Whatsapp-forritinu sem hún hafði notað til að tala við hann.

Því fylgdi sorg að kveðja manninn því innst inni hafði hún allan tímann trúað því að hann væri til og að hann meinti allt það fallega sem hann sagði. „Ég er sjálf mjög rómantísk og hefur alltaf langað að upplifa slíkt gagnkvæmt,“ segir hún. „Ég hef kannski á þessum tíma verið að leita eftir slíku og ekki hugsað um afleiðingarnar sem það gæti haft.“

Hjónabandið gengur betur

Hjónaband konunnar var mjög laskað eftir reynsluna og fyrst um sinn kom ekkert nema skilnaður til greina. Fljótlega áttaði eiginmaðurinn sig hins vegar á að hann gæti ekki hugsað sér að missa hana. Þau ákváðu því að reyna áfram og í dag gengur hjónabandið ágætlega og fjárhagur hennar er að rétta sig af.

Hún biðlar að lokum til fólks að fara varlega í samskiptum við ókunnuga á internetinu. „Ég óska engum þess að lenda í svona. Ég segi bara í guðs bænum farið varlega og ekki treysta öllum.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við konuna í Ástarsögum. Rödd hennar hefur verið breytt í viðtalinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

Sjónvarp

Fann kærastann á Ástareyjunni og vann fyrstu verðlaun

Menningarefni

Kötturinn fann á sér að Jóhann kæmi ekki aftur heim