Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Samlokurnar gerðar upptækar við evrópsku landamærin

12.01.2021 - 16:01
Erlent · Bretland · Brexit · Holland · Evrópa · Stjórnmál
Mynd: EPA-EFE / ANP
„Ertu með kjöt á öllum brauðsneiðunum?“ spurði hollenski landamæravörðurinn og afsakaði sig svo þegar hann neyddist til að gera allt nesti pólska vöruflutningabílstjórans upptækt. „Velkominn í Brexit,“ bætti hann við afsakandi.

Þetta eins og svo margt annað sem snertir líf fólks kann að hafa orðið eftir í umræðunni um Brexit fyrir rúmum fjórum árum, þegar Bretar gerðu upp hug sinn um hvort þeir vildu vera í Evrópusambandinu eða standa utan þess.

Brexit-atkvæðagreiðslan var haldin sumarið 2016 en það var fyrst um nýliðin áramót sem Brexit varð að alvöru, þegar aðlögunartímabilinu lauk og viðskiptasamningur tók gildi.

Meðfylgjandi myndskeið var tekið við landamæraeftirlit í hafnarborginni Hoek van Holland. Þar koma ferjur að landi eftir að hafa flutt flutningabíla frá Bretlandi.

Hollensku landamæraverðirnir þurfa að gera allt kjöt upptækt á landamærunum, enda er nú bannað að flytja ákveðnar vörur frá Bretlandi til Evrópu. Þar á meðal eru kjötvörur, ávextir og grænmeti, fiskur og annað slíkt.

Bresk stjórnvöld hafa gefið út leiðbeiningar til bílstjóra vöruflutningabíla sem þurfa að fara um landamærin við Evrópu. Þar er þeim sagt að „varast auknar takmarkanir á persónulegum inn- og útflutningum“. Ekki má taka með sér vörur sem framleiddar eiga uppruna sinn í dýrum.

Á vef Evrópusambandsins segir að þetta bann sé nauðsynlegt til þess að bægja hættu á sýkingum í dýrum í öllum sambandsríkjum.