Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast vopnuð mótmæli Trumpfólks

Mynd: AP images / AP images
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn í dag, þegar hann hélt áleiðis að mexíkósku landamærunum til að virða fyrir sér vegginn sem hann lét reisa, að hann vildi ekki sjá neitt ofbeldi í fyrirhuguðum mótmælum stuðningsmanna sinna næstu daga.

Hann fordæmdi jafnframt þingmenn demókrata sem hyggjast leggja fram ákæru á hendur honum á bandaríska þinginu á morgun. Ákæran væri framhald á mestu nornaveiðum í stjórnmálasögu Bandaríkjanna. 

Mótmæli víða um Bandaríkin næstu daga 

Bandarísk öryggisyfirvöld óttast að herskáir stuðningsmenn Donalds Trumps láti til skarar skríða næstu daga og efni til mótmæla víða um land í aðdraganda þess að Joe Biden tekur formlega við forsetaembættinu miðvikudaginn 20. janúar. Stuðningshópar Trumps á netinu og öfga hægrihópar hafa hvatt liðsmenn sína til að safnast saman við stjórnarbyggingar í höfuðborgum ríkjanna 50 á sunnudag 17. janúar.

Vopnuð mótmæli sem geta farið úr böndunum

Það sem vekur mestan ugg er að fólk er hvatt til þess að bera vopn. Einn hópurinn gengur svo langt að hvetja til árása á dómshús víða um land. Þetta kemur fram á minnisblaði Alríkislögreglunnar sem ABC fréttastöðin og fleiri hafa undir höndum að sögn BBC. Þá greinir BBC einnig frá því að þingmenn Demókrataflokksins hafi fengið þær upplýsingar frá lögreglunni í Washington að stuðningsfólk Trumps sé að undirbúa þrenns konar mótmæli í höfuðborginni - mótmæli sem gætu hæglega farið úr böndunum, líkt og gerðist þegar ráðist var inn í þinghúsið 6. janúar.

Hyggjast umkringja Þinghúsið, Hvíta Húsið og Hæstarétt

Í fyrsta lagi hefur lögreglan grun um að mótmælendur ætli að umkringja þinghúsið svo þingmenn Demókrata komist ekki inn í húsið. Þar með hefðu repúblikanar öll völd. Þannig er þetta í hugarheimi þessara stuðningsmanna Trumps, en ekki er líklegt að þingmenn repúblikana skrifi upp á þessa áætlun. Auk þess er ætlunin að umkringja Hvíta húsið og hús Hæstaréttar. Þetta hljómar vissulega eins og einhverjir órar, en lögreglan hefur raunverulegar áhyggjur af að þetta geti gerst.

Í öðru lagi er verið að undirbúa vopnaða mótmælagöngu, þá stærstu sem um getur og í þriðja lagi mótmæli til heiðurs Ashhli Babbitt, konunni sem skotin var til bana í þinghúsinu í Washington á miðvikudag, en hún studdi Trump af mikilli ástríðu. Vopnaða mótmælagangan er áætluð á innsetningardaginn sjálfan, 20. janúar, en engar dagsetningar eru á hinum mótmælunum. 

Lágstemmd embættistaka

Joe Biden, verðandi forseti hefur, vegna covid-19 faraldursins, hvatt almenning til þess að halda sig heima og fylgjast með embættistökunni í sjónvarpi. Athöfnin verður að venju við þinghúsið, en vegna árásarinnar í síðustu viku verður margt með öðrum hætti en við fyrri athafnir, að sögn AP. Frá sunnudegi verði um 10.000 þjóðvarðliðar við öryggisgæslu í Washington, varðstöðvum og girðingum verði fjölgað og leitað verði á fólki með málmleitartækjum. Yogananda Pittman, starfandi yfirmaður lögregluliðs þinghússins, segir að fyrir liggi áætlanir um aukna gæslu og lóðin í kringum þinghúsið verði ekki opin almenningi.

Athöfnin í kringum embættistökuna verður lágstemmd. Donald Trump ætlar ekki að mæta en búist er við að Mike Pence varaforseti verði viðstaddur. Þrír fyrrverandi forsetar verða viðstaddir, Bill Clinton, George Bush og Barak Obama. Þeir taka allir þátt í táknrænni athöfn sem á að sýna fram á vilja þeirra allra til þess að sameina þjóðina. 

Demókratar vilja Trump tafarlaust frá 

Demókratar í fulltrúadeildinni lögðu í dag fram þingsályktunartillögu um að Mike Pence varaforseti og ríkisstjórnin virki 25. viðauka stjórnarskrárinnar sem kveður á um að forsetinn sé ekki hæfur til að gegna embætti og hann hverfi frá störfum tafarlaust. Tillagan verður örugglega samþykkt þar sem demókratar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni. Hins vegar eru litlar líkur á að varaforsetinn Mike Pence fari eftir ályktuninni.

Fari leikar svona þá ætla demókratar í fulltrúadeildinni að ákæra Donald Trump. Það gerist á morgun, miðvikudag. Það verður þá í annað sinn sem Trump verður ákærður til embættismissis, en það hefur ekki gerst áður með sitjandi forseta í sögu Bandaríkjanna. Ákæran verður þá send til öldungadeildarinnar þar sem málflutningur fer fram. Þá hefst nokkuð flókið ferli sem óvíst er hve langan tíma tekur, en mjög ósennilegt er að niðurstaða fáist fyrir embættistöku. Verði ákæran samþykkt að lokum getur hún þýtt að Donald Trump geti ekki boðið sig fram í næstu forsetakosningum. 

Óttinn um harðvítug átök ekki ástæðulaus

Spurningin sem flestir velta fyrir sér núna er hversu fjölmenn mótmæli Trump fólks verða og hversu harðvítug þau verða. Óttinn við að gripið verði til vopna er ekki ástæðulaus þegar tekið er mið af átökunum í þinghúsinu á miðvikudag. Og þá má fastlega búast við að mótmælin verði fjölmenn.

Margoft hefur verið bent á að nærri helmingur kjósenda í Bandaríkjunum kaus Donald Trump í forsetakosningunum, 70 milljónir manna. Samkvæmt könnunum studdu eða höfðu 40% þessara kjósenda samúð með aðgerðunum við þinghúsið í síðustu viku. Það er því óvarlegt að álykta að einungis hægri öfgamenn, áhangendur samsæriskenninga um djúpríkið eða hreinir ribbaldar mæti á boðuð mótmæli næstu daga. Venjulegt fólk sem þrátt fyrir allt styður Trump slæst í hópinn og það getur orðið hættuleg blanda þegar vopn og múgæsingur fara saman.

400 milljónir skotvopna í umferð

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands lýsti áhyggjum sínum á ástandi mála í Bandaríkjunum í Morgunútvarpi Rásar tvö í gær. Hann sagði að Trump væri ekki sjúkdómurinn. Hann væri bara sjúkdómseinkennið.

„Það eru um 400 miljónir skotvopna í umferð meðal almennings í Bandaríkjunum" segir Ólafur Ragnar. „Það er um eitt skotvopn á hvern landsmann, allt frá börnum í vöggu og upp í gamalmenni. Stóra spurningin er hvað gerist næst þegar múgurinn mætir næst. Því hann mun gera það, það er alveg ljóst. Sannfæring þessa fólks er að það ætlar ekki að gerast upp. Milljónir þeirra eru sannfærðir um að kosningunum hafi verið stolið, að hinn réttkjörni forseti sé Donald Trump. Svo fólkið mun mæta aftur. Hvenær? Það er spurningin.  En þegar það mætir aftur, mun það þá mæta með byssurnar?" segir Ólafur Ragnar Grímsson.