Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óljós lagagrundvöllur fyrir skyldudvöl í farsóttarhúsi

Mynd: RÚV / RÚV
Lagagrundvöllur fyrir því að skylda farþega, sem velja fjórtán daga sóttkví, til að dvelja í farsóttarhúsi er enn óljós. Heilbrigðisráherra segir fleiri möguleika í athugun eins og framvísun vottorðs. Hún segir skýrast fyrir vikulok hvernig sóttvarnaaðgerðum verður háttað á landamærunum eftir mánaðamót.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölskylda kemur úr landamæraskimun í Leifsstöð.

Stjórnvöld hafa tilkynnt að landamæraaðgerðir verði kunngerðar fyrir 15. janúar. 

Nú er verið að skoða þá tillögu sóttvarnalæknis að þeir komufarþegar sem ekki vilja í tvöfalda skimun verði skyldaðir í fjórtán daga sóttkví í farsóttarhúsi eða öðru opinberu húsnæði. 

Skoða nýja möguleika á landamærunum

„Við erum í raun og veru ennþá að fara yfir þessi mál í ráðuneytinu. Við þurfum náttúrulega að vera búin að vera að botna það núna fyrir vikulok. Við erum að skoða í raun og veru lagagrundvöllinn fyrir því að nota farsóttarhúsið. Og við þurfum eiginlega að finna út úr því hvernig það endar. Við erum líka að skoða fleiri nálganir með sóttvarnalækni eins og til að mynda að gera kröfu um neikvætt PCR próf einhverjum tilteknum tíma fyrir komu til Íslands frá landinu þaðan sem maður er að koma. Þannig að það er svona ýmislegt til skoðunar,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Sóttvarnalæknir hefur hingað til ekki ljáð máls á því að komufarþegar framvísi neikvæðu PCR prófi við komuna til landsins því það sé ekki alveg öruggt. PCR prófin, sem notuð eru við landamæraskimun hér, sýna til dæmis að 23 prósent greinast smitaðir í seinni skimun það er eftir fimm daga sóttkví þótt þeir hafi greinst smitlausir í fyrri skimun. 

Hefði ekki verið vandamál með nýjum lögum

Það er hins vegar ekki öryggi þessara prófa sem er aðalatriðið heldur hvort grundvöllur sé fyrir því í lögum að skylda í þessu tilfelli fólk í sóttkví í farsóttarhúsi í hálfan mánuð. 

Lögin þóttu ekki ekki nægilega skýr í fyrra og var Páll Hreinsson fenginn af stjórnvöldum til að gera álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæða. 

Ýmislegt annað skorti upp á eins og að birta alþjóðaheilbrigðisreglugerðina sem íslenska ríkið samþykkti árið 2007. Hún var ekki birt í Stjórnartíðindum fyrr en 17. nóvember síðastliðinn eftir að á það var bent. Álitsgerð Páls var meðal annars lögð til grundvallar frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum sem nú er fyrir Alþingi. 

En hefði frumvarpið verið samþykkt sem er nú fyrir þingi þá hefði það ekki verið neitt vafamál?

„Nei, það er nokkuð skýrt í frumvarpinu sem liggur núna fyrir þinginu að þá væri lagagrundvöllurinn skýr, já.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir.