Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mótmæla atvinnusvæði í suðurhlíðum Úlfarsfells

12.01.2021 - 09:26
Suðurhlíðar Úlfarsfells.
 Mynd: Loftmyndir - M22.is
Um þúsund manns hafa skrifað undir mótmæli við breytingu á skipulagi á svokölluðum reit M22 undir Úlfarsfelli. Breyta á notkun reitsins úr blandaðri byggð íbúða og verslana í atvinnusvæði.

Reykjavíkurborg hefur undanfarið unnið að breytingum á aðalskipulagi vegna reitsins, sem liggur á milli verslunar Bauhaus og byggðarinnar nyrst í Úlfarsárdal, í suðurhliðum Úlfarsfells. Nú er gert ráð fyrir að þar verði blönduð byggð íbúða og þjónustu við þá sem þar búa, en starfsemi sem alla jafna væri á atvinnu- eða iðnaðarsvæði er ekki heimili.

Breytingin sem borgin hefur lagt til snýr hins vegar að því að þar verði atvinnusvæði með aðallega rýmisfrekum verslunum, heildsölum, léttum iðnaði og verkstæðum. Starfsemin verði að vera snyrtileg en matvörverslun er þó ekki heimil.

Aðstandendur mótmælanna segja á vef sínum að íbúaráð, íbúasamtök og stór félög á borð við Íþróttafélagið Fram hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessar fyrirætlanir í skipulagsferlinu. Þeir vilja að síðustu Suðurhlíðar Reykjavíkur, eins og það er orðað, séu skipulagðar sem mannvænar íbúðir í bland við hreinlega og fjölbreytta starfsemi.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV