Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Mjög þungir dagar“ hjá slökkviliðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk 147 útköll vegna sjúkraflutninga á síðasta sólarhringnum, 24 þeirra voru forgangsverkefni og níu útköll tengdust COVID-19. „Það er mjög mjög mjög mikið,“ segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, í samtali við fréttastofu.

Erfitt að kalla inn mannskap

„Þetta eru mjög þungir dagar hjá okkur,“ segir Stefán og bætir við að það hjálpi ekki til hversu erfitt er að kalla inn aukamannskap á vaktina þegar álagið eykst. „Það er erfitt því okkur er skipt í sóttvarnahólf og við megum ekki blanda saman hópum,“ segir hann. Aðspurður segir Stefán að 27 sjúkraflutningamenn séu á vakt í einu og að eftir því sem álagið aukist þurfi þeir að hlaupa hraðar. „Svo erum við alltaf með þrjá sjúkrabíla aukalega, ef þarf,“ segir hann. 

Í gær voru útköllin 78, í fyrradag 84 en á laugardag náði fjöldinn hámarki þegar slökkviliðinu bárust 166 útköll. 

„Og þegar það er svona mikið álag hjá okkur þá er oftast álag á öllu kerfinu, til dæmis á Landspítalanum,“ segir Stefán. Sjúkraflutningamenn sjái um ýmsa flutninga fyrir spítalann, til dæmis að flytja fólk á milli staða vegna aðgerða eða rannsókna. 

Níu flutningar tengdir COVID-19

Af sjúkraflutningunum 147 voru níu sem tengdust COVID-19 sýkingum. Slökkviliðið sér um alla COVID-flutninga, nema þá sem tengjast lögreglumálum en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sérstakan bíl til þess. 

Stefán segir að það taki mun lengri tíma að sinna COVID-flutningum en öðrum flutningum og að við það aukist álagið enn frekar. „Við þurfum að klæða okkur upp í allan búninginn; heilgalla og grímur og eftir útkall þurfum við að fara úr og þrífa alla snertifleti og sótthreinsa allan búnað,“ segir hann og útskýrir að slökkviliðið hafi fjóra eða fimm bíla sérútbúna fyrir COVID-flutninga sem auðveldara er að þrífa en aðra.

„Svo eigum við sérstaka bombuvél sem við setjum inn í COVID-bílinn, sótthreinsivél sem býr til gufu. Hún heitir NOCO: No Corona,“ segir Stefán að lokum.