Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innkalla Risaþrist vegna umbúða – „Augljóst plastbragð“

Mynd með færslu
 Mynd: Kólus
Sælgætisgerðin Kólus ehf. hefur innkallað sælgætið Risaþrist, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Sælgætið er innkallað vegna þess að umbúðirnar, sem eru framleiddar af fyrirtækinu PMT, spilla bragðinu. Snorri Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Kólus ehf., segir í samtali við fréttastofu að það fari ekki milli mála: „Það er alveg augljóst plastbragð,“ segir hann.

Hann segir að upp á síðkastið hafi Kólus notað umbúðir frá erlendum framleiðenda en að nýlega hafi svo verið ákveðið að prófa samstarf við innlent fyrirtæki: „Við höfðum aldrei unnið með þeim áður, en það fór svona,“ segir hann. Fyrirtækið er PMT, plast, miðar og tæki ehf., samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar.

Snorri segir að gallinn hafi uppgötvast þegar umræður fóru af stað á Facebook-hópnum Nammitips. „Við athuguðum þetta eftir að við fengum veður af þeirri umræðu, og það fór ekki á milli mála, við fundum þetta bara um leið og við opnuðum umbúðirnar,“ segir hann.

 

 

Upplýsingar um vöru sem innköllunin einskorðast við:

Vörumerki:   Sambó
Vöruheiti:   Risa Þristur - lakkrís- og súkkulaðistangir með karamellufyllingu        
Geymsluþol: Best fyrir  Dagsetning: 16.11.21 & 08.01.22
Strikamerki: 5690649006652
Lotunúmer: L350 & L357
Nettómagn: 50 g
Geymsluskilyrði: Á ekki við
Framleiðandi: Kólus ehf., Tunguhálsi 5, 110 Reykjavík
Framleiðsluland: Ísland
Heiti og heimilisfang fyrirtækis sem innkallar vöru:
Kólus ehf., Tunguhálsi 5, 110 Reykjavík.
Dreifing: Bónus, Krónan, Hagkaup, verslanir Samkaupa, verslanir N1, Olís og Skeljungs.

Neytendur sem keypt hafa Risa Þrist með ofangreindum dagsetningum geta skilað vörunni þangað sem hún var keypt eða til Kólus, Tunguhálsi 5.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV