Hélt að bróðir hans væri að gera símaat

Mynd: T2 / Skjáskot

Hélt að bróðir hans væri að gera símaat

12.01.2021 - 13:23

Höfundar

Íslenskur söngfugl að nafni Natan Dagur Benediktsson heillaði norsku dómarana í sjónvarpsþættinum Voice þar í landi. Hann flutti lagið Bruises eftir Lewis Capaldi af slíkri list að einn dómari þáttarins hágrét.

Dómararnir norsku voru allir sammála um að Natan Dagur hefði flutt lagið af ótrúlegri fagmennsku sem er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Natan hafði aldrei áður sungið á sviði. Þeir slógust um Natan en hann valdi norsku söngkonuna Inu Wroldsen til að þjálfa sig áfram í keppninni.

Draumurinn um að taka þátt í söngkeppni hafði lengi blundað í Natani sem aldrei þorði þó að stíga skrefið og sækja um þátttöku. Það var bróðir hans sem ákvað að taka málin í sínar hendur og skrá Natan í norsku keppnina að honum forspurðum. „Hann er mjög góður bróðir og hafði alltaf verið mjög stuðningsríkur í þessu,“ segir Natan. Hann var sjálfur búsettur í Noregi 2007-2011 og hefur síðan þá heimsótt móður sína til Noregs árlega og dvalið þar á sumrin. Hann er því hálfpartinn á heimavelli þar.

Þegar hann fékk símtal þar sem honum var boðið að taka þátt taldi hann að það væri verið að gera at í sér svo hann fíflaðist í manneskjunni sem hann taldi vera bróður sinn. „En svo fattaði ég fljótt að þetta væri ekki grín,“ segir hann glettinn. „Gæinn var mjög hissa á hinni línunni og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að bregðast við.“ Hann ákvað strax að slá til enda fannst honum hann ekki hafa neinu að tapa.

Hann var hissa þegar hann áttaði sig á því að honum hefði tekist að græta einn dómarann í áheyrnarprufunni en honum þótti mjög vænt um það. „Það snerti hjartað. Það er alltaf mjög gaman að geta borið skilaboðin svona vel í gegnum söng,“ segir hann.

Tökur á þáttunum standa fram í miðjan apríl og þá fara beinar útsendingar í gang. Ef Natan heldur áfram að heilla dómarana tekur hann þátt í æsispennandi beinum útsendingum í vor og sumar.

Hér má horfa á flutning Natans í heild sinni.

Rætt var við Natan Dag Benediktsson í Morgunútvarpnu á Rás 2.