Guðmundur Þ. Guðmundsson stýrir vitanlega íslenska landsliðinu á mótinu. Þetta verður sjötta heimsmeistaramótið sem Guðmundur er með lið sem þjálfari. Hann stýrði Íslandi á HM 2003, 2011 og 2019 og Danmörku á HM 2015 og 2017.
Guðmundur Þ. Guðmundsson stýrir vitanlega íslenska landsliðinu á mótinu. Þetta verður sjötta heimsmeistaramótið sem Guðmundur er með lið sem þjálfari. Hann stýrði Íslandi á HM 2003, 2011 og 2019 og Danmörku á HM 2015 og 2017.
Þetta verður hins vegar sautjánda stórmót Guðmundar sem aðalþjálfari. Auk heimsmeistaramótanna var hann með Ísland á EM 2002, 2004, 2010, 2012 og 2020, Dani á EM 2016 og Barein á Asíumótinu 2018. Þá var Guðmundur landsliðsþjálfari Íslands á Ólympíuleikunum 2004, 2008 og 2012 og Danmerkur á Ólympíuleikunum 2016. Þá var Guðmundur aðstoðarþjálfari hjá Alfreð Gíslasyni á HM 2007.
Guðmundur á fern verðlaun sem þjálfari frá stórmótum. Gull frá Ólympíuleikunum 2016 með Danmörku, silfur frá Ólympíuleikunum 2008 með Ísland, brons frá EM 2010 með Ísland og silfur á Asíumótinu 2018 með Barein.
Ísland er í riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó. Fyrsti leikur Íslands á mótinu verður á móti Portúgal á fimmtudagskvöld klukkan 19:30.
Alfreð Gíslason er þjálfari Þýskalands. Þetta er annað heimsmeistaramótið sem Alfreð fer með landslið á. Alfreð var landsliðsþjálfari Íslands á HM 2007. Þetta er hins vegar þriðja stórmótið hans sem þjálfari, því Alfreð var einnig með Ísland á EM 2008.
Þjóðverjar eru í A-riðli HM 2021 með Ungverjalandi, Úrúgvæ og Grænhöfðaeyjum. Fyrsti leikur Þjóðverja á mótinu verður á móti Úrúgvæ á föstudag.
Dagur Sigurðsson er landsliðsþjálfari Japans. Þetta er annað heimsmeistaramótið í röð sem hann er með Japani en fjórða heimsmeistaramótið í röð. Dagur var nefnilega þjálfari Þýskalands á HM 2015 og 2017. Stórmótin eru þó fleiri, því hann var með Austurríki á EM 2010, Þýskaland á EM 2016 og Ólympíuleikunum sama ár. Þá stýrði hann Japan á Asíumótinu 2018 og 2020.
Dagur gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum 2016 og vann brons með Þýskaland á Ólympíuleikunum sama ár.
Japan leikur í C-riðli HM í Egyptalandi með Króatíu, Katar og Angóla. Fyrsti leikur Japana á HM verður á föstudag á móti Króatíu.
Fjórði íslenski þjálfarinn á HM í Egyptalandi er svo Halldór Jóhann Sigfússon. Hann stýrir liði Barein og verður það frumraun Halldórs Jóhanns á stórmóti. Hann tók við Barein seint í haust. Halldór stýrir jafnframt liði Selfoss í Olís-deildinni en þjálfaði áður karla- og kvennalið Fram, karlalið FH og yngri landslið Barein, auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Íslands um skeið.
Halldór Jóhann er þriðji Íslendingurinn sem er aðalþjálfari Barein. Guðmundur Guðmundsson og Aron Kristjánsson hafa báðir stýrt liðinu áður. Aron var t.a.m. með liðið á síðasta heimsmeistaramóti fyrir tveimur árum.
Barein spilar í D-riðli HM 2021 með Danmörku, Argentínu og Kongó. Fyrsti leikur Barein á HM verður á föstudag á móti ríkjandi heims- og Ólympíumeisturum Danmerkur.
Aðeins Spánverjar eiga jafn marga landsliðsþjálfara á HM í Egyptalandi og Ísland eða fjóra. Það eru Jordi Ribera (Spánn), Valero Rivera (Katar), Manolo Cadenas (Argentína) og Roberto García (Egyptaland).
Á HM í Danmörku og Þýskalandi 2019 voru fimm íslenskir landsliðsþjálfarar við störf. Guðmundur með Ísland og Dagur með Japani. Aron Kristjánsson stýrði þar Barein, Kristján Andrésson Svíþjóð og Patrekur Jóhannesson Austurríki. Á EM 2020 voru þrír íslenskir landsliðsþjálfarar. Guðmundur, Kristján og Erlingur Richardsson með Holland.