Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Allir inniliggjandi á hjartadeild reyndust neikvæðir

12.01.2021 - 22:50
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Rannsókn á sýnum vegna Covid-19-skimunar 32 inniliggjandi sjúklinga á hjartadeild landspítalans lauk fyrir tíu í kvöld og reyndust öll sýnin neikvæð. Sjúklingur á deildinni greindist með Covid síðdegis í dag. Sýnataka starfsfólks deildarinnar stendur yfir fram á nótt og lýkur í fyrramálið. Niðurstöður úr þeirri skimun liggja fyrir um hádegi á morgun.

Auk þess vinnur rakningateymið hörðum höndum að því að rekja smitið og senda útsetta í sóttkví.

Smitið uppgötvaðist síðdegis síðdegis þegar maður sem hefur legið inni á deildinni frá því í desember greindist með Covid-smit úr seinni sýnatöku. Maðurinn útskrifaðist af hjartadeildinni á Hringbraut í dag og þurfti að fara í tvöfalda skimum áður en hann færi á sinn nýja dvalarstað. Maðurinn er með lítil eða engin einkenni. Hjartadeildinni hefur verið lokað og um 200 manns komnir í sóttkví. Þeir verða allir skimaðir og allt kapp lagt á að uppræta smitið áður en það dreifist meira á þessum viðkvæma stað. Aðrar deildir þurfa nú að sinna þeim sem leita á hjartadeild meðan hún er í sóttkví.

„Það náttúrulega segir sig sjálft að þegar um er að ræða hjartasjúklinga þá þurfum við að leita til gjörgæsludeildar, bráðamóttöku og svo þarf að hafa samband við alla sjúklinga inni á deildinni og ættingja þeirra og gefa þeim upplýsingar um þetta svo þarf að upplýsa fólk í stjórnkerfinu og svo framvegis og framvegis svo að þetta er mjög víðtækt viðbragð sem fer af stað,“ sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar LSH.

„Núna erum við bara að kortleggja þetta og strax á fyrsta sólarhringnum mun það skýrast hvort að þetta sé meira en það virðist og þá verður viðbragðið í samræmi við niðurstöður fyrstu könnunar.“

Már segir minni líkur á að þetta smit valdi álíka ástandi og varð í haust þegar smit kom upp á Landakoti. Færri deili herbergjum og salernum á hjartadeildinni auk þess sem þar sé mun betri loftræsting.

„Nei ég á ekki von á því húsnæði hjartadeilarinnar er nýuppgert og er í góðu ástandi. Auðvitað er hópsýkingin á Landakoti okkur öllum í fersku minni þannig að það eru allir á tánum þannig að ég á alls ekki von á því.“