18 leikmenn smitaðir í bandaríska liðinu

Mynd með færslu
 Mynd: teamusa.org

18 leikmenn smitaðir í bandaríska liðinu

12.01.2021 - 10:36
Lið Bandaríkjanna fyrir HM í handbolta er í miklum vandræðum eftir að 18 kórónaveirusmit greindust í hópnum. Þjálfarinn er líka sýktur og aðeins 12 leikmenn eru leikfærir fyrir HM.

Bandaríkin eru með á HM í fyrsta sinn síðan 2001 og var talsverð eftirvænting fyrir þátttöku þeirra. Liðið hefur dvalið í Danmörku undanfarnar vikur til að búa sig undir HM en þegar liðið fór í Covid-19 skimun fyrir brottför til Egyptalands kom reiðarslagið: 18 leikmenn og þjálfarinn, Robert Hedin, eru með veiruna og mega ekki fara til Egyptalands.

„Þetta er ótrúlega þungbært,“ segir Hedin við Aftenposten í Noregi. Hedin er fyrrum landsliðsþjálfari Noregs og varð sjálfur Evrópumeistari með Svíþjóð árið 1994.

Bandaríkin eiga að mæta Austurríki á fimmtudag og svo Noregi á laugardag.

„Við sendum 12 leikmenn til Egyptalands, en við erum ekki með vörn. Við erum þó með einn markmann,“ segir Hedin.

„Kannski getum við hinir komið og tekið þátt í Forsetabikarnum,“ bætir hann við en liðin sem komast ekki áfram úr riðlakeppninni leika í Forsetabikarnum þar sem spilað er um neðstu sæti mótsins.

Fari svo að Bandaríkin þurfi að draga lið sitt úr keppni er lið Norður-Makedóníu næst á listanum.

Uppfært kl. 11:35: 
Bandaríska liðið lék æfingaleik gegn danska úrvalsdeildarliðinu Ribe/Esbjerg á föstudag. Eitt smit er komið upp í leikmannahópi Ribe/Esbjerg eftir leikinn og allt liðið farið í sóttkví. Rúnar Kárason leikur með liðinu og er í sóttkví á meðan niðurstaðna er beðið úr frekari skimunum á liðinu.

Þá munu líka hafa greinst smit í brasilíska hópnum fyrir HM. Einn leikmaður og fjórir í starfsliði liðsins eru smitaðir. Brasilíska liðið hefur verið við undirbúning í Portúgal undanfarna daga.