Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Uppselt í hlaup með margra mánaða fyrirvara

Mynd með færslu
 Mynd: Laugavegur Ultra marathon

Uppselt í hlaup með margra mánaða fyrirvara

11.01.2021 - 13:33
Aðsókn í utanvegahlaup hefur aldrei verið meiri en núna. Uppselt er orðið í sum stærstu hlaup sumarsins mörgum mánuðum áður en þau fara fram og þátttakendafjöldi í nokkrum öðrum hefur margfaldast frá því áður en faraldurinn braust út.

Á sjötta hundrað sæti í hið 55 kílómetra langa Laugavegshlaup milli Landmannalaugar og Þórsmerkur seldust upp á innan við hálftíma. Til samanburðar má nefna að fyrir fjórum árum seldist upp í hlaupið á þremur vikum. Nær ellefu hundruð hafa skráð sig í Hengilinn í sumar sem verður að líkindum stærsta utanvegahlaup sumarsins.

„Það er uppselt í hvert hlaupið á fætur öðru. Aukningarnar í öll utanvegahlaup eru tölur sem menn áttu ekki von á,“ segir Þórir Erlingsson er mótstjóri Víking mótaraðarinnar sem Hengillinn er hluti af. „Ég get sagt fyrir okkur hjá Víking mótaröðinni og Hengill ultra að þegar við opnuðum fyrir skráningar í nóvember áttum við ekki von á því að það yrði uppselt á örfáum dögum.“

Mikil aðsókn er í mörg hlaup. Opnað var fyrir skráningu í Súlur Vertical klukkan átta í gærkvöld. Hálfum sólarhring síðar höfðu rúmlega tvö hundruð manns skráð sig, sem ætla að hlaupa frá átján upp í 55 kílómetra. Það eru nær tvöfalt fleiri en tóku þátt síðast þegar hlaupið fór fram, 2019. Rúmlega 400 hafa skráð sig í Puffin Run í Vestmannaeyjum, 20 kílómetra hring kringum Heimaey. Í fyrra var hlaupið hið fyrsta eftir að samkomutakmörkunum var aflétt og þá tóku 300 þátt, rúmlega tvöfalt fleiri en árið áður.

Fleiri hlaup njóta aukinnar aðsóknar og ný hlaup úti í náttúrunni eru kynnt til sögunnar.

Þórir segir margar ástæður fyrir fjölguninni. „Til dæmis eru Íslendingar ekki að fara erlendis að hlaupa núna og þurfa þá að finna sér ný hlaup á Íslandi. Síðan erum við kannski að uppgötva náttúruna meira.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Helgi Jensson - Aðsend mynd

Tengdar fréttir

Frjálsar

Seldist upp á klukkutíma og kerfið hrundi vegna álags

Íþróttir

Víkingamótaröðinni lauk með Eldslóðinni í dag

Íþróttir

Hljóp Laugaveg í 20. sinn en hefur aldrei gengið hann

Vestmannaeyjabær

Uppselt í fyrsta hlaupið eftir rýmkun samkomubanns