Tilfinningatengsl fólks við umhverfi sitt

Mynd: Óðinn Svan / RÚV

Tilfinningatengsl fólks við umhverfi sitt

11.01.2021 - 17:05

Höfundar

Í pistli umhverfissálfræðingsins Páls Líndal eru staðarvensl og staðarsamsemd útskýrð. Farið yfir hvernig við skilgreinum okkaru sjálf og aðra út frá upprunastað sínum - og mikilvægi þess að tala af virðingu um hina ýmsu staði, þorp og bæi, því það er alltaf einhver sem er tengdur þeim stað tilfinningaböndum og sárna illgirni og ósanngjarnt orðalag og jafnvel níð um staðinn „sinn“. Það á líka við um fólkið sem býr í 101 Reykjavík.

Páll Líndal skrifar:

Mig langar til að hefja pistil dagsins á því að biðja þig um að staldra aðeins við, bara örstutt.

Draga djúpt inn andann og ef þú ert í aðstöðu til – lokaðu þá augunum: 

...Og sjáðu fyrir þér uppáhaldsstaðinn þinn

...þinn uppáhaldsstað í þessum heimi

...við erum að tala um uppáhaldsstaðinn þinn í þessu lífi 

...sjáðu hann fyrir þér.

Eðli málsins samkvæmt, þá er ég viss um að staðurinn laðar fram eftirsóknarverðar myndir í huga þínum. Hann vekur upp góðar tilfinningar. Þú gætir jafnvel fundið fyrir smá afslöppun í líkamanum og hver veit nema lítið bros læðist fram. Þessi staður kallar örugglega fram minningar, góðar minningar. Er þetta ekki dásamlegt?

Það sem þú ert að finna fyrir núna er það sem kallað er staðarvensl. Það er tilfinningaleg tenging við tiltekinn stað, sem verður til vegna langra og tilfinningaríkra samskipta þinna við staðinn. Þetta er tenging sem oftast hefur mjög djúpa meiningu fyrir okkur og skiptir okkur máli. Þessi tenging getur orðið svo djúp að hún fer að skilgreina okkur sem persónur, hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Þannig getur staðurinn og við sjálf runnið saman þannig að erfitt að greina á milli, við rennum bara saman í eitt og til verður það sem kalla má „staðarsamsemd“.

Staðarvensl og skilgreining sjálfsins

T.d. erum við öll Íslendingar og Ísland er okkar land, og það þýðir eitthvað ákveðið, það að vera Íslendingur stendur fyrir eitthvað. Við björgum okkur, við erum víkingar, við látum ekki deigan síga, Ísland er flottast, við höfum hreinasta loftið, fallegustu náttúruna, besta vatnið og bragðbesta lambakjötið  - so how do you like Iceland?

Sum okkar eru Reykvíkingar, sum eru Skagfirðingar, enn aðrir eru að austan, nú eða að vestan. Eftir síðasta pistil minn, þar sem ég ræddi í fáum orðum um framvinduna á Ráðhústorginu á Akureyri sl. 30 ár, var einkar ánægjulegt að nokkrir hlustendur ákváðu að hafa samband við mig símleiðis til að ræða málin, nokkrir sendu mér línu gegnum tölvupóst og nokkrir sáu ástæðu til að deila pistlinum mínum á facebook-síðum sínum. Mig langar til að þakka öllu þessu ágæta fólki kærlega fyrir. Það er skemmtilegt að segja frá því að hver einn og einasti þessara aðila var Akureyringur eða hafði sterk tengsl við Akureyri. Ég ætla ekki að segja að þetta komi mér á óvart, staðarvenslin og staðarsamsemdin skýra þetta. Ráðhústorgið á Akureyri skiptir nefnilega Akureyringa og þá sem tengjast Akureyri sterkum böndum, meira máli en aðra landsmenn . Því gaf umfjöllunin þeim eitthvað aukalega.

Við skilgreinum okkur nefnilega út frá þeim stöðum sem við komum frá, sem við eigum rætur að rekja til. Við skilgreinum okkur út frá póstnúmerum sem ólumst upp í, götum sem höfum búið í sl. 30 ár, við skilgreinum okkur út frá þeim skólum sem við göngum í á lífsleiðinni, vinnustöðum okkar. Það að ég sé alinn upp í Bergstaðastrætinu sem er í 101 Reykjavík það hefur ákveðna meiningu fyrir mig og það hefur líka ákveðna merkingu fyrir þig, hlustandi góður. Kannski þá merkingu að ég sé „einn af lattelepjandi liðinu úr 101“ eins og ég var kallaður á fundi um daginn. Þó það hafi sennilega ekki verið illa meint, þá skal ég fúslega játa það, og það í fyrsta skipti á ævinni, að finnst mér alltaf leiðinlegt þegar talað er um lattelepjandi lið úr 101. Einfaldlega vegna tengsla minna við svæðið, þetta snertir einhverja viðkvæma taug. Nú í sumar ráðlagði meðlimur leikhóps eins fólki frá því að heimsækja Kópasker og Raufarhöfn, bara alls ekki fara þangað. Þetta var sett í fram í hálfkæringi en engu að síður risu íbúar og aðrir venslamenn þessara þéttbýliskjarna upp á afturlappirnar og var sannarlega ekki skemmt. Leikhópurinn baðst afsökunar á „illskiljanlegum og svörtum húmor“ og ég vona sannarlega að sættir hafi náðst milli málsaðila.

Dæmi hér á undan sýna hvað staðarvensl og staðarsamsemd geta rist djúpt. Þau geta rist svo djúpt að þegar okkur finnst talað með áhugaverðum hætti um „staðinn okkar“ þá hlýnar okkur um hjartaræturnar en finnist okkur talað ósæmilega um „staðinn okkar“ getur það verið ígildi þess að ráðist sé á persónu okkar, sögu okkar og það sem við stöndum fyrir. Og þá rísum við upp. Þessi dæmi sýna okkur líka að þegar við höfum enga tilfinningalega tengingu við tiltekinn stað, þá getur okkur fundist allt í lagi að tala óviðurkvæmilega um hann. Og þegar ég segi getur OKKUR fundist allt í lagi að tala óviðurkvæmilega um hann, þá á ég við um okkur öll. Við þekkjum þetta öllsömul. Það er talað um dreifbýlistúttur, sérfræðinga að sunnan, liðið þarna fyrir vestan, fólkið í Breiðholtinu, ríka liðið út á Nesi...og lattelepjandi liðið í 101.

Virðum tilfinningatengsl fólks við umhverfi sitt

Það sem gerir staðarvensl og staðarsamsemd svo áhugaverð en um leið svo vandmeðfarin, eru annars vegar þessi ólíku tengsl fólks við ólíka staði og hinsvegar það að einhver ákveðinn staður hafi djúpa þýðingu og merkingu í huga eins, en nákvæmlega enga þýðingu og enga merkingu í huga annars. Og af þessum sökum er svo mikilvægt að staðarvensl og staðarsamsemd fái aukið rými í umræðunni um skipulag, hönnun og mótun umhverfisins. Það er mikilvægt að þessi fyrirbæri séu betur skoðuð og vigtuð inn í umræðuna og það er mikilvægt að við viðurkennum og virðum ólík tilfinningatengsl fólks við umhverfi sitt. Að við lyftum okkur upp úr þeirri hugsun að tiltekinn staður hafi enga þýðingu eða merkingu, bara vegna þess að hann hefur ekki þýðingu eða merkingu fyrir okkur prívat og persónulega.

Hverfum aftur á uppáhaldsstaðinn okkar. Það vill enginn horfa upp á það að uppáhaldsstaðurinn sé eyðilagður, að hann sé brotinn niður, honum rótað upp og valtað yfir hann . Hvað þá ef það gerist undir þeim formerkjum að hann hafi enga þýðingu eða merkingu, að hann skipti engu máli. Að lokum langar mig til að leggja inn nokkur atriði til umhugsunar:

- vilt þú að það sé borin virðing fyrir uppáhaldsstaðnum þínum?

- finnst þér að ALLIR eigi að bera virðingu fyrir uppáhaldsstaðnum þínum óháð því hvort ÞEIM finnst staðurinn skipta máli eða ekki?

- ef þér finnst að ALLIR eigi að bera virðingu fyrir uppáhaldsstaðnum þínum, finnst þér þá ekki að aðrir geti sett fram sömu kröfur?

- hvers konar umhverfi fengjum við ef staðarvensl og staðarsamsemd fengi meira vægi og meiri vigt við skipulag, hönnun og mótun umhverfis?

Takk fyrir í dag.