Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingið tilbúið til ákæru verði ekki af brottvikningu

epaselect epa08925249 Speaker of the House Nancy Pelosi delivers remarks during a press conference in the US Capitol in Washington, DC, USA, 07 January 2021. Speaker Pelosi called for the removal of US President Donald J. Trump either by the cabinet invoking the 25th amendment or possibly through the House taking up articles of impeachment.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir að á morgun, mánudag, verði gerð samþykkt í þinginu um að ríkisstjórnin hlutist fyrir um að Donald Trump Bandaríkjaforseta verði vikið úr embætti á grundvelli 25. viðauka stjórnarskrárinnar.

 Sá viðauki heimilar að forseta sé vikið frá teljist hann af einhverjum orsökum óhæfur að gegna embætti sínu.

Pelosi segir að þingið sé tilbúið að grípa til ákæru til embættismissis forsetans fallist Mike Pence varaforseti og ríkisstjórnin ekki á að beita ákvæðum 25. viðaukans.

Hún segir forsetann ógn við lýðræðið og stjórnarskrána og því verði að bregðast skjótt við. „Eftir því sem frá líður, verður skýrara hve ógnvænleg árás forsetans á lýðræðið var,“ segir Pelosi.

Talið er líklegt að tillaga um ákæru njóti stuðnings einhverra þingmanna úr röðum Repúblikana en síður er talið líklegt að tilskilinn meirihluti í öldungadeildinni náist til að ákæra nái fram að ganga.

Joe Biden tekur við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu 20. janúar næstkomandi.