Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stöð 2 að fullu í áskrift - fréttir í læstri dagskrá

11.01.2021 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: Vísir.is - Skjáskot
Allt efni Stöðvar 2 verður í læstri dagskrá frá og með 18. janúar næstkomandi, þar á meðal fréttirnar. Stöðin verður því að fullu áskriftarstöð, en áskriftinni fylgir líka aðgangur að efnisveitunni Stöð 2+.

Í tilkynningu er haft eftir Þórhalli Gunnarssyni framkvæmdastjóra fjölmiðla Stöðvar 2 að þetta sé sóknaraðgerð. Með þessu sé sess fréttastofu Stöðvar 2 enn frekar tryggður. Þórhallur segist sannfærður um að með stuðningi áskrifenda skapist forsendur til að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu og framleiðslu innlends efnis. Undir þetta tekur Þórir Guðmundsson ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísir og Bylgjunnar - breytingin geri kleift að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu í sjónvarpi.

Samhliða þessum breytingum fá áskrifendur aðgang að sjónvarpsveitunni Stöð 2+, sem nú heitir Stöð 2 Maraþon. Þá verða áskriftaskilmálar sveigjanlegri þannig að engin skylda verður til að binda sig í áksrift lengur en í mánuð.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV