Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Starfsfólki heimilt að miðla gögnum í góðri trú

11.01.2021 - 14:12
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Energepic - Pexels
Starfsfólki er heimilt að miðla gögnum innan úr fyrirtæki, hafi það atvinnurekanda grunaðan um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi, samkvæmt nýjum lögum um vernd uppljóstrara sem tóku gildi 1. janúar. Lögin voru samþykkt á Alþingi í maí.

Stuðla að því að upplýst verði um lögbrot

Lögin kveða á um vernd starfsfólks sem upplýsir um lögbrot eða annars konar ámælisverða háttsemi fyrirtækis. Samkvæmt þeim telst miðlun upplýsinga ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu, sem starfsmaðurinn er bundinn af, gruni hann atvinnurekanda um ámælisverða háttsemi. Slík miðlun felur heldur ekki í sér refsi- eða skaðabótaábyrgð starfsfólks og getur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.

Samkvæmt lögunum er óheimilt að láta starfsmann, sem ljóstrað hefur upp um mál, sæta óréttlátri meðferð, svo sem með því að rýra réttindi hans, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem miðlað hefur gögnum gjalda þess á annan hátt.

Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni.

Innri uppljóstrun er meginreglan

Starfsfólki er heimilt að miðla upplýsingum innan fyrirtækisins og til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila, eins og umboðsmanns Alþingis, Vinnueftirlitsins eða ríkisendurskoðanda. Starfsfólk þeirra stofnana og fyrirtækja sem eru að 51 prósent hluta í eigu hins opinbera er hins vegar ekki aðeins heimilt heldur skylt að deila gögnum til viðeigandi eftirlitsaðila, hafi þeir grun um lögbrot innan fyrirtækis.

Þá má starfsfólk miðla gögnum til ytri aðila, eins og fjölmiðla, hafi innri uppljóstrun fyrst verið reynd til þrautar. Ytri uppljóstrun er þó háð ýmsum skilyrðum, eins og því að starfsmaður eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir lögbrot eða ámælisverða háttsemi, og að starfsmaður skuli hafa réttmæta ástæðu til ætla að brotið geti varðað fangelsisrefsingu.

Fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn í vinnu þurfa, samkvæmt lögunum, að setja sér sérstakar reglur um verklagið í kringum uppljóstrun, í samráði við starfsfólk. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV