Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Söngvarar lýsa vantrausti á óperustjóra og stjórn ÍÓ

11.01.2021 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Félagsfundur Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, hefur lýst vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum. Í yfirlýsingu saka söngvarar óperustjóra meðal annars um að hafa nýtt sér trúnaðarákvæði í samningum við söngvara til að höggva í samstöðu þeirra og benda á fylgni milli þess að söngvarar leiti réttar síns og þess að þeir fái ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni.

Samningar ekkert annað en gerviverktaka

Í yfirlýsingu félagsins segir að samningar Íslensku óperunnar við söngvara geti ekki talist neitt annað en gerviverktaka. „Í krafti einokunarstöðu sinnar og aðstöðumunar hefur þessi sjálfseignarstofnun aðeins boðið söngvurum gallaða verksamninga, sem gera ákvæði sem vísa í kjarasamning við stéttarfélögin (FÍH og FÍL) að engu, eins og nýfallinn dómur hefur nú leitt í ljós,“ segir þar.

Þar er vísað til dómsmáls sem Þóra Einarsdóttir óperusöngkona höfðaði gegn Íslensku óperunni fyrir kjarasamningsbrot á æfingum og sýningum í uppfærslu Óperunnar á Brúðkaupi Fígarós í fyrra. Í samningi Þóru við Óperuna er vísað til kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistarmanna við Óperuna. Óperustjóri hefur hins vegar sagt að kjarasamningur Íslensku óperunnar og FÍH hafi aðeins gilt þegar einsöngvarar voru fastráðnir við Íslensku óperuna en það séu þeir ekki lengur. 

Í yfirlýsingunni sem söngvarar sendu frá sér í morgun furða þeir sig á því að Óperan hafi gert þeim að undirrita samninga sem innihalda „marklaus ákvæði, sem óperustjóri sjálfur telur vera úrelt“.

Með dómsmáli sagðist Þóra hafa viljað freista þess að láta á það reyna hvort Íslensku óperunni bæri að fara að kjarasamningi við FÍH og virða vinnuverndarákvæði.

Óperan var sýknuð í málinu á fimmtudaginn síðasta en málskostnaður var felldur niður og í dómnum segir að aðalatriðið sé að samningur Þóru og Íslensku óperunnar hafi verið verksamningur. Í yfirlýsingu sem Íslenska óperan sendi frá sér í kjölfarið sagði að Óperan teldi mikilvægt að horfa til framtíðar og hyggðist efna til samtals við fulltrúa söngvarastéttarinnar um það hvernig samningagerð yrði best háttað í tengslum við uppfærslur Íslensku óperunnar.

Þau sem leiti réttar síns fái ekki aftur vinnu

Í yfirlýsingu Klassís segir einnig að stjórnunarhættir og stefna Íslensku óperunnar í kjaramálum söngvara hafi leitt til þess að laun söngvara hafi lækkað að raungildi undanfarin ár.

Þá segir að dæmi séu um töluverðan óútskýrðan launamun kynjanna og að óperustjóri grafi undan samstöðu söngvara. „Trúnaðarákvæði eru í samningum Íslensku óperunnar við söngvara, enda hefur óperustjóri nýtt sér þá leynd og ítrekað reynt að höggva í samstöðu söngvara með ýmsum hætti. Sjá má mikla fylgni milli þess að fólk kvarti eða leiti réttar síns og þess að fá ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni, eða möguleika á vinnu með fyrirsöng,“ segir í yfirlýsingunni.

Einnig kemur fram að það „langlundargeð“ sem söngvarar hafi sýnt þrátt fyrir ófaglega stjórnunarhætti sjálfseignarstofnunarinnar Íslensku óperunnar sé nú þrotið. Aðkoma söngvara að stjórn Óperunnar hafi áður verið mikil en hafi minnkað stöðugt og sé nú engin. „Dæmi eru um að stjórnin hafi markvisst komið í veg fyrir aðkomu söngvara, til dæmis með því að breyta samþykktum sínum á lokuðum fundi til að koma í veg fyrir að réttilega tilnefndir söngvarar tækju sæti í stjórn,“ segir í yfirlýsingunni.

Telja óperustjóra ekki bera hag söngvara fyrir brjósti

„Félagsmenn Klassís telja það endurtekið hafa sýnt sig að núverandi óperustjóri og stjórn Íslensku óperunnar bera ekki hag óperusöngvara fyrir brjósti og lýsa því yfir fullkomnu vantrausti á bæði stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur,“ segir í yfirlýsingunni að lokum. Nú standi fyrir dyrum vendipunktur með undirbúningi að þjóðaróperu á Íslandi. Söngvarar voni að stjórnunarhættir á borð við þá sem íslenskir óperusöngvarar hafi þurft að láta sér lynda af hálfu Íslensku óperunnar undanfarin ár verði þar með úr sögunni og fagmennska hafin til vegs og virðingar á ný.