Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir leka persónugreinanlegra upplýsinga mjög slæman

Mynd með færslu
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir mjög slæmt að persónugreinanlegum upplýsingum úr rannsókn sakamáls hafi verið dreift víða. Hann þvertekur fyrir að lögreglan haldi hlífiskildi yfir afbrotamönnum gegn upplýsingum.

Gögnum úr viðkvæmri rannsókn í máli lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sakaður var um spillingu var lekið til fjölmiðla og víðar í síðustu viku. Rannsóknin gekk út á að kanna orðróm um að lögreglumaðurinn væri með uppljóstrara í fíkniefnaheiminum sem fengi að starfa óáreittur - gegn upplýsingagjöf um aðra í þeim heimi. Lögreglufulltrúinn var hreinsaður af öllum ásökunum. Í gögnunum sem lekið var birtast meðal annars nöfn og framburður úr skýrslutöku  yfir lögreglumönnum, yfirmönnum í lögreglunni og upplýsingagjafanum sjálfum. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir svona leka slæman.

„Það segir sig sjálft að það er mjög slæmt þegar svona persónurekjanlegar upplýsingar og jafnvel upplýsingar um starfshætti lögreglu leka til almennings.“
Veldur þetta skaða?
„Það er eitt af því sem á bara eftir að koma í ljós og þarf bara að skoða sérstaklega.“

Aðspurður hvort verklagi verði breytt í framhaldinu segir Margeir að verklagið sé sífellt til endurskoðunar og frá því þetta mál var til skoðunar hafi verkferlum verið breytt. Skoðað verði hvort ástæða sé til að breyta frekar. Hvort lögreglan noti uppljóstrara sem á sama tíma stundi afbrot segir Margeir:

„Lögreglan hefur heimild til að vera í samskiptum við uppljóstrara og síðan er hver og einn einstaklingur skoðaður. En ef þú átti við hvort að við séum í samskiptum við afbrotamenn sem lögreglan veit að eru í sífelldum afbrotum, þá er svarið nei.“
En eruð þið í samskiptum við uppljóstrara sem njóta velvildar lögreglu, það er að segja þið haldið hlífiskildi yfir þeim?
„Nei, það er ekki svoleiðis nema þá að því leytinu til að þeir njóta nafnleyndar. Þess vegna er þetta afar slæmt.“
Það er ekki þannig að lögreglan líti í hina áttina?
„Nei, það er ekki svo.“

Í reglugerð um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála frá 2011 segir meðal annars að lögreglumanni sé óheimilt að gefa uppljóstrara fyrirheit um ívilnanir, slíkt sé ólöglegt og ekki á valdi lögreglu. Einnig að heimilt sé að greiða uppljóstrara fyrir upplýsingar og koma þannig í veg fyrir alvarlegt brot. Það sé lögreglustjóra að meta endanlega heimild fyrir slíkri greiðslu.