Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir forsendur hlutafjárútboðs halda

11.01.2021 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Forstjóri Icelandair segir forsendur hlutafjárútboðsins halda þrátt fyrir að flug sé með minnsta móti. Hann spáir aukningu í vor og segir mikið að gera í fraktflutningum.

Samkvæmt áætlun Icelandair eru nú farin um tólf farþegaflug á viku, tvö flug í viku til Amsterdam, sama til London, nánast daglega til Kaupmannahafnar og tvisvar í viku til Boston.

„Þetta þýðir að við erum í þessu svokallað híði áfram á meðan þessi óvissa ríkir en okkar markmið er að halda tengingunum gangandi bæði til Evrópu og Norður-Ameríku, bæði hvað varðar farþegaflug, þessar tólf ferðir sem þú vísar í, er farþegaflugið en síðan erum við með annað eins í fraktflugi og allt upp í tuttugu ferðir á viku. En við erum í ákveðnu híði á meðan þessi óvissa er og þetta ástand er á okkar helstu markaðssvæðum.“

Bogi segir horfurnar til lengri tíma litið góðar, eftirspurn eftir ferðalögum hafi haldist á markaðssvæðum félagsins. Bogi segir ástandið ekki hafa áhrif á starfsmannahald. Í kynningu fyrir hlutafjárútboð félagsins var gert ráð fyrir að fyrsti ársfjórðungur yrði rólegur en lifna tæki yfir flugi á öðrum fjórðungi. Bogi segir þær forsendur halda.

„Þetta sem við kynntum og lögðum upp með í okkar gögnum þegar við kynntum útboðið það getur alveg gengið eftir. Við gerðum ráð fyrir að fyrsti fjórðungur þessa árs yrði mjög rólegur bara eins og ahnn er núna, þetta færi aðeins í gang á öðrum ársfjórðungi og í heild sinni á þessu ári, 2021, þá ætlum við að vera með 1/3 af fluginu 2019 og ég er alveg bjartsýnn á að það geti gengið eftir og gott betur.“

Bogi segir mikilvægt að halda uppi flugsamgöngum, bæði farþega, en ekki síður vöruflutningum þar sem mikil eftirspurn sé fyrir hendi.

„Það er mikili eftirspurn eftir plássi í frakt, sérstaklega núna er útflutningurinn mjög sterkur og til dæmis núna um helgina sem var að líða þá vorum við með fimm flug til Boston þannig að það er mikil eftirspurn eftir fraktplássi frá Íslandi.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV