
Óttast sjónmengun og vilja íbúafund um vindmyllugarð
Sjónræn áhrif í 40 kílómetra fjarlægð
Fyrirtækið Storm orka stefnir á að reisa vindorkuver í Dölunum. Hugmyndin er að reisa allt að 24 vindmyllur sem eru 114 metrar að hæð, þegar við bætast spaðar þeirra getur hæsti punktur vindmyllanna orðið 180 metrar. Vindmyllurnar geta því sést langt að og talið er að sjónræn áhrif verði metin í allt að 40 kílómetra fjarlægð frá vindorkuverinu.
Skipulags- og umhverfisráð Húnaþings vestra hefur kallað eftir frekari upplýsingum frá Dalabyggð og vill að haldinn verði íbúafundur um málið. Þar er Pétur Arnarsson formaður.
Horfa í mögulega sjónmengun
„Fyrir okkur hérna megin þá finnst okkur þetta vera risastórt mál bara varðandi kannski fyrst og síðast ásýnd. Og þess vegna viljum við fá frekari gögn og upplýsingar um stærð og umfang,“ segir Pétur.
Hefur þú einhverja tilfinningu fyrir afstöðu íbúa í þessu máli?
„Nei í rauninni ekki og það er kannski þess vegna sem við köllum eftir því að fá kynningu frá Dalabyggð þannig að við getum kynnt þetta fyrir íbúum í Húnaþingi vestra.“
Snýst þetta fyrst og síðast þá að einhvers konar sjónmengun eða eitthvað slíkt?
„Já klárlega. Það sem við erum að horfa í fyrst og síðast ásýndin, möguleg sjónmengun og auðvitað með hvaða hætti þetta kæmi mögulega til með að skerða möguleika bænda í Húnaþingi vestra til að nýta sínar jarðir með sama hætti.“