„Mér líður ekki vel þarna inni“

Mynd: gh / RÚV

„Mér líður ekki vel þarna inni“

11.01.2021 - 13:17

Höfundar

„Það þarf rosalegan andlegan styrk til að skoða þetta hjá sjálfum sér og spyrja: Af hverju þarftu öll þessi læk? Hvað er það sem þú ert að eltast við þarna inni?“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson sem hefur miklar efasemdir um nytsemi samfélagsmiðla. Hann gefur út nýtt lag í vikunni ásamt rapparanum Birni, sem er að Palla sögn það besta sem hann hefur átt hlutdeild í.

Stórsöngvarinn og diskóstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson er yngstur sjö systkina og fæddur og uppalinn í Vesturbænum. Foreldrar hans voru bæði klassískt menntaðir söngvarar og það var alltaf mikil tónlist á heimilinu. Hann var aðeins fimm ára þegar Diddú eldri systir hans sló í gegn sem poppstjarna og seinna átti hann eftir að fylgja í fótspor hennar og foreldranna.

Dagaði uppi í diskóinu

Fjölskyldan varð fljótlega handviss um að Palli litli yrði líka listamaður. Upprunalega virtist hann stefna í teikningu eða fatahönnun en kvikmyndaáhugi hans vakti svo forvitni um leikstjórastólinn. Í menntaskóla komst hann svo að því að tónlistin ætti hug hans allan og hann hefur ekki litið um öxl. 

„Ég veit að ef ég hefði farið í kvikmyndir hefði fókusinn verið á hryllingsmyndir eða vísindaskáldsögur en í tónlist vildi ég díla við diskódýrið því ég hafði áhuga á danstónlist,“ segir hann. „Leikar fóru þannig að ég daga upp í diskóinu og ég er mjög sáttur við það. Vona að restin af liðinu sé það líka.“

Foreldrar Páls Óskars eru bæði látin. Móðir hans lést árið 1995 og faðir hans sjö árum síðar. Bæði veiktust af krabbameini. Systkinin sjö eru hins vegar afar samheldin og þau halda mikið hópinn. „Okkur þykir gríðarlega vænt um hvert annað,“ segir hann í viðtali við Mannlega þáttinn á Rás 1. Þar sagði hann frá æskunni, uppeldinu, nýju lagi sem hann gefur út í vikunni og ræddi um samfélagsmiðla og þá hættu sem hann telur stafa af þeim.

Besta popplag sem hann hefur unnið að

Á fimmtudag kemur út glænýtt lag með söngvaranum sem Páll Óskar fullyrðir að sé besta popplag sem hann hefur unnið að. Sticky plötuútgáfa sendi frá sér tilkynningu á Facebook fyrir skemmstu um að lagið sé með rapparanum Birni og Páli Óskari. „Bæði lagið og myndbandið, ég held þetta sé með því betra í alvöru sem ég hef fengið að koma nálægt,“ segir hann.

Og þó hann hafi verið að gera tónlist síðan í menntaskóla, og haldið upp á fimmtugsafmæli á síðasta ári, er hann hvergi nærri af baki dottinn. „Bestu fréttirnar eru að maður er enn þá að, orkan er enn til staðar og hungrið. Ég er til í að vera eins og May West, 80 ára gömul og enn að gera sjó.“

Raggi Bjarna var alltaf með þennan eld

Páll Óskar var samferða Ragnari Bjarnasyni að miklu leyti í tónlist og þeir sungu til dæmis báðir með Milljónamæringunum og tróðu oft upp saman. Raggi Bjarna var eins og þjóð veit í hörkustuði að syngja á sviðinu nánast fram á sinn síðasta dag og hann virtist aldrei fá leið á því að koma fram. Páll Óskar á fyrirmynd í honum. „Ég fékk að fylgjast með honum á milli sjötugs og áttræðs, enn að troða upp, enn með þetta og enn með þennan eld,“ segir hann. „Það var í gegnum hann sem ég fékk staðfestingu á því að þetta væri lífsviðurværi og að maður getur lifað góðu lífi á að sinna þessu starfi.“

Allt sé þetta spurning um viðhorf og Raggi Bjarna var alltaf með það á réttum stað. „Um leið og hann mætti á svið varð allt vitlaust og allir átu úr lófanum á honum. Hann treysti því svo vel að katalógurinn hans væri bara góður og flottur.“

Nota samfélagsmiðla til að stjórna lýð og skríl

Eins og margir Íslendingar og í raun heimsbyggðin öll fylgdist Páll Óskar með óeirðirðunum sem áttu sér stað í og við þinghúsið í Washington í síðustu viku. „Eins og allir aðrir sat ég límdur við sjónvarpið að fylgjast með CNN og öllu,“ segir hann.

Hann tók í kjölfarið þátt í umræðum um málið á samfélagsmiðlum þar sem vinur hans, Reynir Þór Eggertsson, sem stundum er kallaður Eurovision-Reynir, benti á að ábyrgð þeirra stjórnmálamanna, sem hafa verið í slagtogi með Trump, sé mikil. „Þegar tappar eins og Trump láta út úr sér öfgafull skilaboð eða segir fake news, allir eru á móti mér og það er verið að stela frá okkur landinu og ég veit ekki hvað og hvað - ef stjórnmálamenn taka þátt í þessu bulli og setja manninum engin mörk þá er ábyrgð stjórnmálamanna mjög mikil.“

Páll Óskar er sammála því sjónarmiði en bætti við að þarna ættu samfélagsmiðlar líka stóran þátt. „Ábyrgð samfélagsmiðla er líka mikil í þessu samhengi því fasistar og einræðisherrar nota samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter sem vopn og stökkpall. Planta inn hugmyndum til að stjórna lýð og skríl.“

Missir trúna á mannkyninu

Hann segist upplifa það að Bandaríkin séu algjörlega klofin í tvennt og afleiðingin sé algjör sundrung. Í kjölfarið fór hann að velta fyrir sér samfélagsmiðlum og áhrifum þeirra. „Ég fór að hugsa: Hvernig líður mér inni á þessum miðlum? Ég átta mig á því að mér líður ekki vel á samfélagsmiðlum.“

Því sé ekki auðsvarað hvað samfélagsmiðlar hafi í raun gert okkur gott ef eitthvað er. „Ég sit stundum fyrir framan tölvuskjáinn og fylgist með fólki hnakkrífast, skítkast í allar áttir, allir hafa rétt fyrir sér og allir eru að kafna úr skoðunum. Það eina sem gerist hjá mér er að axlirnar sökkva og ég missi trúna á mannkyninu.“

Allt í plati rassagati

Krakkar og unglingar una sér heldur ekki vel á slíkum miðlum, að mati Páls Óskars. „Þeim líður ekki vel á Instagram þar sem allir eru með stór brjóst og fullkominn rass og kröfurnar eru orðnar gígantískar.“

Í raun geti enginn staðið undir þessu kröfum því meira að segja fullkomna fólkið á myndunum noti svokallaða filtera og lagi myndirnar áður en þær séu settar inn. „Þetta er allt í plati rassagati.“

„Ykkur kemur í raun ekkert við hvað ég fæ mér að borða“

Sjálfur notar Páll samfélagsmiðla fyrst og fremst fyrir það sem er vinnutengt en hann setur ekki inn myndir og stöðuuppfærslur úr einkalífinu. „Ég er ekki mikið að pósta kisunum heima hjá mér og ykkur kemur í raun ekkert við hvað ég fæ mér að borða,“ segir hann.

En í hvert sinn sem hann setur eitthvað inn verður hann heltekinn af því að athuga hve margir hafi sýnt því velþóknun sem hann deildi. „Þá ligg ég í símanum að fylgjast með því hvað ég hef fengið mörg læk. Ég er orðinn læksjúkur og dagurinn fer í þetta. Hann eyðileggst hjá mér.“

Hann telur atburðina í Bandaríkjunum síðustu misseri vera áminningu fyrir okkur öll og hvatning til að spyrja okkur hvers vegna og til hvers við séum að nota samfélagsmiðlana og hverju við viljum deila. „Ertu tilbúinn að taka ábyrgð á því sem þú segir og gerir þarna inni? Það þarf rosalegan andlegan styrk til að skoða það hjá sjálfum sér og spyrja: Af hverju þarftu öll þessi læk? Hvað er það sem þú ert að eltast við þarna inni?“

Læk-takkinn er lygi

Hann bindur vonir við að næsta kynslóð eða þau börn sem nú séu að fæðast sjái í gegnum leikritið. „Ég held að það verði kynslóðin sem gefur samfélagsmiðlum fingurinn. Þetta er kynslóðin sem á eftir að ranka við sér og fatta að læktakkinn er lygi. Þetta er allt lygi. Þetta er allt performans.“

Fólk í kringum Pál Óskar hefur í auknum mæli sagt skilið við samfélagsmiðla og hann segir að allir hafi verið fegnir þeirri ákvörðun eftir smá tíma. „Sama fólk kemur til mín þremur mánuðum síðar og segir: Ég er að upplifa heiminn á nýjan hátt. Það eru stórkostlegir hlutir að gerast hjá mér.“

Setur aldrei inn myndir af heimilinu

Sjálfur vildi hann óska þess að hann gæti lokað öllum reikningum. „En í minni stöðu neyðist ég til að nota Facebook og Instagram til að auglýsa að ég sé að troða upp hér og þar.“ 

Sem fyrr segir setur hann þó ekki inn myndir af neinu sem gerist innan veggja heimilisins. „Ég vel að taka ekki myndir af sjálfum mér heima hjá mér ótt og títt. Ég vil bera virðingu fyrir mínu prívat lífi og ég verð að bera virðingu fyrir heimilinu mínu. Ég vil ekki að hver sem er viti hvernig heimilið mitt lítur út því heimilið mitt er hreiður þar sem ég verð að fá hvíld.“ Það sé alveg nóg fyrir sig að fá athygli þegar hann stendur uppi á sviði. „Þar er ég að biðja um athygli. Rándýrt ljósjó á mér,“ segir hann glettinn.

Sumir nota samfélagsmiðlana sem hálfgerða minningabók og það virðist sem ekkert hafi gerst í raun og veru nema því séu gerð skil á miðlunum. „Þá ertu kominn á slæman stað í lífinu því harði diskurinn í heilanum hefur nóg pláss til að geyma allar þessar minningar um alla þessa göngutúra þú ferð í,“ segir hann. „Mér finnst samt allt í lagi að setja skemmtilega stórviðburði í lífinu þarna inn. Þetta eru bara hugrenningar því ég verð að viðurkenna að mér líður ekki vel þarna inni.“

Þurfum umferðarreglur á samfélagsmiðlum

Lausnina á vandamálinu segir hann felast í að kveðja samfélagsmiðla eða setja einhvers konar reglur, svipaðar og umferðarreglurnar sem fundnar voru upp þegar bílar fóru að keyra um göturnar. „Við neyddumst til að búa til umferðarreglur; rautt, gult, grænt. Í dag veit heimurinn hvað það þýðir og við förum eftir umferðarreglum,“ segir hann. „Við erum á sama stað með internetið og þurfum að gera umferðarreglur.“

Rætt var við Pál Óskar Hjálmtýsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Íslendingar eru hillbillís með kreditkort – allir“

Tónlist

Þakklátur fyrir þennan risastóra pásutakka í líf sitt