
John Snorri heldur í vonina þrátt fyrir snjóflóð á K2
Á Facebook síðu John Snorra er hægt að fylgjast með framvindu fjallgöngunnar. Í morgun greindi hann frá því að stórt snjóflóð hafi fallið úr hlíðum K2. Hann segir það hafa verið ótrúrlega sýn að sjá flóðið. Þeir virðast ekki hafa lent í flóðinu eða orðið meint af.
John Snorri og fylgdarmenn hans, Muhammad Ali Sadpara og Sajid Ali þurftu að taka allan búnað úr tjaldi sínu og binda niður í búðum 2. Þeir eru nú í grunnbúðum K2. Hann óttast að búnaðurinn sé illa leikinn en það hefði skapað stærri vandamál að ráðast ekki í þær aðgerðir.
Óvissa ríkir um framvindu göngunnar, en John segir þá félaga ætla að reyna að koma sér aftur upp í búðir 2 og svo í búðir 3 og hvílast þar næst þegar færi gefst. Í seinustu viku sagði John Snorri að útlit væri fyrir að þeir verði á K2 til 20. janúar. Aðstæður séu krefjandi, vindhraðinn nái allt að 70 metrum á sekúndu í efstu búðum fjallsins og frostið geti farið í allt niður í 30 gráður.
John Snorri stefnir að því að verða fyrsti maðurinn til að klífa K2 að vetrarlagi. Ferðalag hans hófst þann 10. desember og hefur hann því verið á fjallinu í rúman mánuð. Hann reyndi einnig að klífa fjallið að vetrarlagi í fyrra en þurfti frá að hverfa.
Hann kleif fjallið árið 2017, fyrstur íslendinga og var þá fyrsti maðurinn í þrjú ár til að ná á topp þess. Um 300 manns hafa náð á topp K2, en um 80 hafa látist við tilraunina. K2 er næsthæsta fjall í heimi á efir Mount Everest. Það er á mörkum Pakistan og Kína í Karakoram-fjallgarðinum og er 8.611 metra hátt. Everest er 8.844 metrar á hæð til samanburðar. K2 er oft kallað Villta fjallið því það þykir svo erfitt að klífa það.