Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hús á 30 km hraða

11.01.2021 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Í Noregi er vitað um 2300 svæði þar sem kvikleir er í jörðu. Enn á eftir að rannsaka fleiri staði. Fá 2015-2019 var varið um fimm milljörðum í aðgerðir til að koma í veg fyrir að kvikleirskriður færu af stað. Með þessum aðgerðum var öryggi tæplega 900 íbúðarhúsa tryggt og um 300 annara bygginga. Um 110 þúsund manns í Noregi búa á svæðum þar sem kvikleir er í jörðu.

Brotnar niður við álag

Það hefur ekki enn verið útskýrt hvað það var sem kom kvikleirskriðunni af stað í Ask í Gjerdrum í Noregi. Hins vegar eru skriður af þessu tagi þekktar víða um heim, einkum á norðlægum slóðum. Davíð Rósenkrans Hauksson, jarðtækniverkfræðingur, sem starfar hjá verkfræðifyrirtækinu VSÓ, hefur unnið við meta svæði í Noregi þar sem grunur er um að kvikleir leynist í jörðu. En hvað er það sem gerist þegar leirinn skríður skyndilega fram?

„Hann er stöðugur í sínu náttúrulega ástandi en þegar hann fær meira álag en hann þolir brotnar hann alveg niður. Styrkurinn getur minnkað allt að 100-falt. Þá verður hann í raun þunnfljótandi blanda af leirflögum og því vatni sem er til staðar í leirnum,“ segir Davíð.

Jarðvegurinn hrynur og verður að fljótandi eðju. Kvikleir á þurru landi er gamall hafsbotn sem myndaðist á síðustu ísöld. Þegar jökullinn hörfaði reis landið. Gamli hafsbotninn komst á þurrt land. Til að byrja með innihalda þessi setlög talsvert af salti en í tímans rás skolast salt úr jarðveginum.

„Saltið veldur því að leirinn er stöðugur. Ef þú tækir sýni af þessum leir og settir það mikið álag að hann gæfi sig þá yrði hann að drullu. En við það að setja salt aftur í leirinn og hræra saman þá myndi hann allt að því ná sínum upprunalega styrk og formi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Davíð Rósenkrans Hauksson

Kvikleir leynist víða.

„Þetta er aðallega á norðlægum slóðum. Þetta er í Skandinavíu, Rússlandi, Kanada og sennilega eitthvað í Alaska. Sem betur fer er þetta ekki hér á Íslandi.“

Skriðan í Rissa

Í Noregi hafa verið kortlögð 2300 svæði þar sem hætta er á leirskriðum. Norðmenn vörðu fimm milljörðum króna á árunum 2015-19 til að tryggja þessi svæði. Ýmis þekkt dæmi eru um kvikleirskriður í Noregi. Árið 1978 fór nokkuð stór skriða af stað í Rissa í Noregi sem er landbúnaðarhérað í Suður-Þrændalögum. Skriðan var nokkuð stór, hreif með sér hús og var rösklega kílómetra löng.

„Þarna hefur verið landbúnaður þúsund ár og frekar strjálbýlt. Sennilega ekki verið að gerðar miklar breytingar í gegnum tíðina. 1978 tók bóndi sem bjó nálægt sjónum grunn að húsi. Hann flutti jarðveginn úr grunninum að sjávarkambinum. Það setti af stað þessa skriðu sem byrjar að skríða niður við sjóinn og étur sig svo upp eftir. Um einn og hálfan kílómetra inn í landið. Þetta náðist á filmu. Þarna sjást hús fljóta á um 30 kílómetra hraða á klukkustund. Þetta er mjög áhugavert og hræðilegt að horfa á,“ segir Davíð.

Þyngslin og mikil

Bóndinn kom jarðveginum, um 700 rúmmetrum, úr grunninum fyrir á sjávarkambinum rétt hjá hlöðunni. Þunginn af honum var nógu mikill til að koma skriðunni af stað. Davíð segir að eftir skriðuna í Rissa hafi verið byrjað að kortleggja svæði þar sem kvikleir er í jörðu og meta hvort hætta væri á skriðum. Hann hefur unnið að því að meta svæði í Noregi á vegum VSÓ verkfræðistofunnar. Mælingar eru gerðar og reynt að móta landið þannig að ekki sé mikill halli. Halli getur valdið því að jarðvegurinn skríður fram. Hann segir að rannsóknir á þessum svæðum beinist að því að kanna hvort og hversu kvikur leirinn er. Gerðir séu stöðugleikaútreikningar.

„ Ef öryggið er ekki nægilegt þarf oft að fara í einhverjar framkvæmdir. Þær eru yfirleitt frekar einfaldar. Oft eru þetta litlar brekkur og ekki mikill halli. Kannski 10 sentimetra á hvern metra. Þá þarf að fylla upp í lægðir í landinu til að tryggja stöðugleikann eða lækka landið,“ segir Davíð.