Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hreinsa nú 20 tonn af rusli frá sem áður fór í Pollinn

11.01.2021 - 13:46
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Rúmlega 20 tonn af föstu efni í skólpi, sem áður rann í pollinn á Akureyri árlega, eru nú hreinsuð frá áður en skólpið endar í sjónum. Ný skólphreinsistöð var tekin í gagnið í bænum fyrir jól eftir margra ára bið.

400 lítrar af óhreinsuðu skólpi í Eyjafjörð

Fram til þessa hafa yfir 400 lítrar af óhreinsuðu skólpi runnið í Eyjafjörð á hverri sekúndu. Það hefur staðið til bóta í tæplega 20 ár. Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku segir nýju stöðina breyta miklu.

„Hér erum við sem sagt að fanga föstu efnin, sía þau frá. Það sem sagt rennur vatn í gegnum þessa þrepasíu og svo lyftir hún sér og lyftir efnunum upp, föstu efnunum sem fara svo í gegnum snigil og í svokölluð ruslakör í plastpoka. Þannig að hér á söfnunin sér stað,“ segir Helgi. 

Heppilegra ef búnaðurinn hefði verið í meiri hæð

Auk þess að hreinsa fasta efnið frá er skólpið látið renna eftir 400 metra langri útrásarlögn. Gamla lögnin sem er um 90 metrar er þó áfram nýtt því meira vatn reyndist í kerfum bæjarins en reiknað var með. Helgi segir að heppilegra hefði verið að hafa búnaðinn í meiri hæð. 

„Þegar það er ofanvatn í kerfinu, mikil hlýindi hláka og fleira þá um álagsútrásina sem og á einhverjum dögum þar sem hástreymt er.“

Er það alveg jafn oft og þið reiknuðuð með, það er að segja notkun á gömlu leiðslunni?

„Nei það má nú segja að við séum með miklu meira vatn í kerfinu en við reiknuðum með. Við hönnuðum þetta þannig að eftir því sem sjávarstaða hækkaði væri hægt að hækka búnaðinn og svona þegar maður kíkir í baksýnisspegilinn þá hefði hann gjarnan mátt vera aðeins hærri.“

Er það eitthvað sem verður hægt að breyta?

„Já já Nú keyrum við þetta í eitt tvö ár og skoðum og stillum þetta saman þannig að allt falli nú og passi og síðan metum við bara framhaldið.“

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Nýja stöðin er skammt frá smábátahöfninni