Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fréttatími Stöðvar 2 í læstri dagskrá

11.01.2021 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Frétttatími Stöðvar 2 verður í læstri dagskrá frá og með 18. þessa mánaðar. Auglýsingatekjur standa ekki undir rekstri fréttastofunnar einar og sér segir framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2.

 

Fréttatími Svöðvar 2 hefur verið í opinni dagskrá í 34 ár, að undanskyldu stuttu tímabili í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar. Frá og með 18. janúar verða kvöldfréttir Stöðvar 2 aðeins aðgengilegar áskrifendum. Stjórnendur segja að með þessu verði grundvöllur Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar tryggður til framtíðar.

Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone, segir að minni auglýsingatekjur hafi kallað á breytingar á rekstrinum.

„Við stöndum frammi fyrir því að auglýsingatekjur sem hafa borið uppi þennan glugga að þegar þær fara fallandi þá verður að bregðast við. Þú getur brugðist við með skerðingu en við völdum að fara ekki þá leið. Við völdum þá leið að reyna að halda styrk okkar af því að fréttir Stöðvar 2 skipta máli.“

Fréttir verða áfram öllum aðgengilegar í beinni útsendingu á Bylgjunni og birtast í formi myndbrota á Vísi eftir að útsendingu lýkur á Stöð 2. 

„Við höfum haldið úti mjög öflugum fréttaskýringarþætti sem heitir Kompás. Og áfram verða fréttaskýringar á Vísi.is og í kvöldfréttum og við munum halda því áfram. Þannig að það er enginn bilbugur á þessari fréttastofu. Alls ekki.“

Verða einhverjar breytingar á mannskap?

„Nei, engar fyrirhugaðar breytingar á mannskap.“

Engar uppsagnir?

„Nei.“

Síðustu ár hafa 5 milljarðar íslenskra króna streymt úr landi til erlendra afþreyingarmiðla eins og Netflix, YouTube, Google, Facebook ofl. Þórir Guðmundsson, ritstjóri Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar segir að það hafi einnig kallað á breytingar.

„Við höfum þurft að sníða okkur stakk eftir vexti. Nú er búið að segja nei kvöldfréttirnar eru hluti af dagskrá Stöðvar 2 og það eru engar áætlarnir uppi um að minnka framboðið þar á nokkurn hátt.“

En hvað bjóðið þið á móti? Nú eruð þið að fara að rukka fyrir eitthvað sem áður var ókeypis.

„Já vonin er sú að þeir sem að voru ekki áskrifendur en voru að njóta kvöldfréttanna að þeir vilji gerast áskrifendur til að njóta ekki bara kvöldfrétta heldur líka bara allrar dagskrárinnar sem er á Stöð tvö 2 og Stöð 2+.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV