Fólk fari ekki til útlanda að nauðsynjalausu

11.01.2021 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Ég held að það sé helsta hættan sem steðjar að okkur núna, að smit berist til landsins gegnum landamærin,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna. Hann hefur sent heilbrigðisráðherra tillögur um hertar sóttvarnareglur á landamærunum og hvetur fólk til að ferðast ekki til útlanda nema nauðsyn krefji.

Tillögurnar eru í þremur þáttum; í fyrsta lagi snúa þær að því að afnema val fólks um 14 daga sóttkví þegar það kemur til landsins. „Þannig að það þurfa allir að fara í skimun, tvær með fimm daga sóttkví á milli,“ segir hann. Geti fólk af einhverjum ástæðum ekki gert það verður það að dvelja í Farsóttarhúsi á meðan á sóttkví stendur. Í öðru lagi leggur hann til að börn verði í sóttkví með foreldrum sínum eftir að hafa komið til landsins, en þau þurfi ekki að fara í skimun. Og í þriðja lagi leggur Þórólfur til að eftirlit með fólki í sóttkví verði hert. „Og á þann hátt munum við reyna eins og hægt er að fá ekki fleiri smit frá útlöndum,“ segir hann.

3 smit innanlands í dag  

Þórólfur segist ánægður með tölur helgarinnar. „En við erum vön að túlka tölur um helgar með varfærni og gerum það einnig nú,“ segir hann, enda eru tekin færri sýni um helgar en á virkum dögum. 

Þórólfur minnir á að slakað verði á takmörkunum innanlands á fimmtudaginn. Það sé gert vegna þess hversu vel hafi gengið undanfarið og að hann telji að nú sé rétti tíminn til að liðka fyrir ýmissi starfsemi, og að íþrótta- og menningarstarfsemi geti hafist í einhverri mynd á ný. 

Hann hvetur Íslendinga til að fara ekki í ferðalög til útlanda nema nauðsyn krefji og minnir á að þrátt fyrir tilslakanir séu jafnmiklar kröfur gerðar til fólks og áður um að viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir og forðast hópamyndanir sem mest. 

Samhliða þeim breytingum á samkomutakmörkunum sem taka gildi á fimmtudaginn er fyrirhugað að breyta viðvörunarstigi Almannavarna vegna COVID-19 úr rauðu í appelsínugult.