Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ekki hægt að slaka fyrr en ónæmi orðið útbreitt

Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnalæknir sér ekki fyrir sér að hægt verði að slaka á sóttvörnum á landamærunum fyrr en útbreitt ónæmi fyrir kórónuveirunni hefur myndast í þjóðfélaginu. Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að fara ekki til útlanda að nauðsynjalausu. Þeir sem greinast með smit á landamærunum eru flestir með íslenska kennitölu. 

Ekki til útlanda að nauðsynjalausu

Ástand faraldursins í útlöndum er afleitt: 

„Ég held að það sé líka ástæða til þess að hvetja alla Íslendinga til að vera ekki að fara í ferðalög erlendis að nauðsynjalausu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Innanlands hefur ástandið hins vegar verið gott undanfarið og smit talin á fingrum annarrar handar. 

Í gær greindust þrír og allir voru í sóttkví. Tvö smit greindust virk á landamærum í gær, þrjú í annarri skimun og tólf bíða mótefnamælingar.

Flestir með íslenska kennitölu

Af þessum sautján smitum sem greind voru á landamærunum voru fimmtán þeirra greind í fólki með íslenska kennitölu. 

Flestir sem greinast á landamærum eru með íslenska kennitölu en ekki liggur fyrir hve margir þeirra eru með íslenskt ríkisfang og hve margir með erlent. Hlutfallið er breytilegt: 

„Að meðaltali er þetta svona milli eitt og tvö prósent en í sumum vélanna allt upp í tíu prósent. Þær vélar sem flestir hafa greinst eru að koma frá Póllandi.“

Tvöföld skimun grundvallaratriði

Í minnisblaði sóttvarnalæknis 6. janúar til heilbrigðisráðherra um landamæraaðgerðir, þar sem hann leggur til að tvöföld skimun verði skylda, kemur fram að 561 af 135 þúsund farþegum hafi greinst við virkt kórónuveirusmit á landamærum frá 15. júní. Hlutfallið er 0,4 prósent. Á tæpum mánuði frá 10. desember til 6. júní hafa 26 valið 14 daga sóttkví í stað skimunar. Og í nokkrum tilfellum hafi þessir einstaklingar, segir sóttvarnalæknir, verið staðnir að því að fara ekki að reglum um sóttkví og því aukið hættu á smiti. 

„Ég held að þetta sé algert grundvallaratriði núna til að halda landinu fríu að halda þessari tvöföldu skimun áfram.“

Óvíst hvenær hjarðónæmi myndast

Enn er ekki vitað hvenær hjarðónæmi myndast hér því ekki er vitað nákvæmlega hvenær nægt bóluefni berst eða hve marga þarf að bólusetja en miðað við smitstuðulinn tvö til þrjá er talið að það séu 60 til 70 prósent en fleira kemur til eins og gildandi sóttvarnir. 

„Nú þegar við erum búin að ná útbreiddu ónæmi í samfélaginu þá sér maður alveg fyrir sér að það væri hægt að slaka á á landamærunum. Og hafa skimunina einhvern veginn einfaldari heldur en hún er núna og fara þannig hægt inn í allar breytingar.“

Meira á morgun

Á morgun er von á fyrstu tólf hundruð skömmtunum af bóluefni frá Moderna og verður framlínufólk í heilbrigðisþjónustu bólusett.