Ekkert viðtal við Trump á Fox

11.01.2021 - 20:10
epa08879865 US President Donald Trump walks before boarding Marine One on the South Lawn of the White House in Washington, D.C., USA, 12 December 2020. Trump is going to attend the 121st Army-Navy Football Game at  United States Military Academy in West Point.  EPA-EFE/YURI GRIPAS / POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - BLOOMBERG POOL
Fréttastöð Fox boðaði á Twitter sjónvarpsviðtal við Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna. Þetta átti að vera í fyrsta skipti sem Trump veitti viðtal eftir innrásina í þinghúsið á miðvikudag. Fox sagði í færslu sinni að Trump ætlaði að tjá sig um þá ákvörðun Twitter og Facebook að banna hann.

NRK greindi meðal annars frá boðuðu viðtali. Síðar kom í ljós að þetta reyndist allt vera rangt og sá sem stjórnaði Twitter-síðunni hafði gert sér of miklar vonir um að forsetinn myndi veita viðtal.  

Bæði Facebook og Twitter ákváðu að útiloka Trump frá miðlum sínum. Twitter sagði í yfirlýsingu að þetta væri gert vegna hættu á frekari ofbeldisverkum. Mark Zuckerberg, framkvæmdastjóri Facebook, sagði of mikla áhættu fylgja því að leyfa Trump að notfæra sér miðla fyrirtækisins. Ástandið í landinu væri óstöðugt og því yrði lokað fyrir aðgang hans.

Trump hefur sætt harðri gagnrýni eftir innrásina og óeirðirnar. Demókratar lögðu í dag fram þingsályktunartillögu þar sem skorað var á Mike Pence, varaforseta, um að beita 25. viðauka stjórnarskrárinnar til að víkja Trump úr embætti. Greidd verða atkvæði um hana á morgun.

Þá kynnti Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, drög að ákæru á hendur forsetanum fyrir embættisglöp. Talið er að hún vilji með þessu veita Pence tvo valkosti; hann beiti viðaukanum eða forsetinn verði ákærður.