Bóluefni og bankasala rædd á fundi þingflokksformanna

11.01.2021 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Forseti Alþingis fundar með formönnum þingflokka nú fyrir hádegið til að ræða upphaf þingstarfa en þing kemur saman á ný í næstu viku. Búast má við að stjórnarandstaðan ýti á eftir svörum um stöðu bólusetninga gegn Covid 19 hér á landi, og þá mun fyrirhuguð sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka líka bera á góma.

Fundurinn er reglubundinn - þingflokksformenn hittast alltaf á mánudögum og hefðbundið er að þeir hittist á þessum tíma til að ræða dagskrána við upphaf vorþings. Þeir stjórnarliðar sem fréttastofa hefur rætt við segja fundinn vera á þeim nótum.

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins býst við að mál tengd bólusetningum gegn Covid 19 beri á góma. „Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir að ítreka beiðni mína um að fá samningana um bóluefnin. Við höfum ekki enn fengið samningana afhenta. Síðan verður örugglega ítrekuð krafa um að umræða um allt tengt bóluefnum og bólusetningu eigi sér stað í upphafi eða á fyrstu dögum þingsins.“

Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar ætlar jafnframt að óska eftir umræðu um sölu ríkisins á hlut á Íslandsbanka, sem fjármálaráðherra ákvað fyrr . „Það styttist í að fjárlaganefnd þurfi að skila umsögn þannig að það er mikilvægt að ræða þetta mál,“ sagði Oddný.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV