
Biden: „Trump ætti ekki að vera í embætti. Punktur“
Ummælin náðust ekki á upptöku en fjöldi fréttamanna heyrði Biden láta þau falla.
Hann sagðist einnig vona að bandaríska þingið gæti skipt tíma sínum í tvennt. Það myndi þá staðfesta ráðherra í ríkisstjórn hans á morgnana auk þess að afgreiða björgunarpakka vegna kórónuveirufaraldursins en nota síðdegið til að ræða ákæru á hendur Donald Trump fyrir embættisglöp.
Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata, kynnti í dag ákæruna. Samhliða henni var lögð fram þingsályktunartillaga þar sem skorað var á Mike Pence, varaforseta, að beita 25. viðauka stjórnarskrárinnar um að víkja forsetanum úr embætti.
Vefsíða Politico segist hafa heimildir fyrir því að tíu þingmenn Repúblikana í fulltrúadeildinni velti því nú alvarlega fyrir sér að greiða atkvæði með ákæru Demókrata..
Update: I'm hearing as many as 10 House Republicans are very seriously considering supporting impeachment — and GOP Conference Chair Liz Cheney is said to be one of them, per multiples sources.
Dems also working them hard. BUT no final decisions have been made & things fluid.
— Melanie Zanona (@MZanona) January 11, 2021
Guardian segir þingið geta skipt þingstörfum sínum í tvennt eftir 20. janúar. Þá verða Demókratar með meirihluta í öldungadeildinni því Kamala Harris, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, fer með oddaatkvæði þar sem báðir flokkar eru með 50 þingmenn.
Biden var einnig spurður að því í bólusetningunni hvort hann óttaðist að sverja embættiseið sinn utandyra eftir óeirðirnar við þinghúsið í síðustu viku. „Alls ekki,“ svaraði Biden. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur varað við aukinni hættu á vopnuðum átökum í Washington og víðar í Bandaríkjunum. Reiknað er með 15 þúsund hermenn úr heimavarnarliðinu verði kallaðir út til að sinna öryggisgæslu í Washington þegar Biden sver embættiseið sinn.
„Það sem er mikilvægast er að að sækja þá til saka sem stóðu fyrir uppreisnaráróðri gegn ríkinu, ógnuðu lífi fólks og unnu skemmdarverk á opinberum eignum, “ sagði Biden. Þar yrðu Demókratar og Repúblikanar að snúa bökum saman.