Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Biden bólusettur öðru sinni í dag

epa08927250 A frame grab from a handout video released by the Office of the President Elect shows US President-Elect Joseph R. Biden speaking during a press conference in Wilmington, Delaware, USA, 08 January 2021. US President-Elect Joseph R. Biden announced his economics and jobs team.  EPA-EFE/OFFICE OF THE PRESIDENT ELECT / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - OFFICE OF THE PRESIDENT ELECT
Joe Biden, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, verður bólusettur öðru sinni gegn COVID-19 í dag, mánudag. Nú eru liðnar þrjár vikur frá því að sjónvarpað var beint frá fyrri bólusetningu Bidens, til að auka tiltrú almennings á öryggi bóluefnanna.

Í tilkynningu frá starfsliði Bidens segir að sömuleiðis verði sýnt beint frá þeirri síðar, án þess að nánar væri tilgreint hvernig að því verði staðið. Biden, sem orðinn er 78 ára, sagði ekkert vera að óttast þegar hann fékk fyrri sprautuna 21. desember síðastliðinn.

Þá sagði Biden heimsbyggðina standa í þakkarskuld við allt það fólk sem hefði gert bólusetningar mögulegar, vísindamenn og framlínustarfsfólk. Það hefði unnið stórkostlegt starf.

Yfir 374 þúsund Bandaríkjamenn hafa fallið í valinn af völdum COVID-19 en þegar hafa 6,7 milljónir fengið fyrri sprautu bólusetningarinnar. Yfir 22 milljónum skammta hefur þegar verið dreift um landið allt, sem undirstrikar hversu skipulega þarf að ganga til verks svo unnt verði að bólusetja fólk í forgangshópum.