Axel Flóvent - You Stay By the Sea

Mynd: Nettwerk Music Group / You Stay By the Sea

Axel Flóvent - You Stay By the Sea

11.01.2021 - 16:20

Höfundar

Síðustu fimm ár hafa verið viðburðarík hjá tónlistarmanninum Axel Flóvent en á þeim tíma hefur hann gefið út fjölmörg lög og þröngskífur sem gengið hafa vel. Nú gefur hann úr fyrstu breiðskífu sína í fullri lengd hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Nettwerk sem hefur fengið nafnið You Stay By the Sea.

Tónlistarmaðurinn Axel Flóvent ólst upp á Húsavík þar sem hann byrjaði að fikta við tónlist. Að hans sögn var hann undir áhrifum frá tónlistarmönnum á borð við Bon Iver og Bombay Bicycle Club þegar hann samdi fyrstu þröngskífu sína, Forest Fires. Sú fékk glimrandi góðar viðtökur svo sem á Spotify og víða annars staðar og hefur í dag fengið yfir 50 milljónir hlustanir.

Axel gerði samning við útgáfufyrirtækið Sony þegar hann var tvítugur og flutti í kjölfarið til Amsterdam þar sem hann bjó og vann að tónlist sinni. Í Amsterdam fór Axel sjaldan út úr íbúð sinni og upplifði bæði einangrun og einmannaleika sem endurspeglaði ekki tálsýn hans um að hann væri í mekka evrópska tónlistarlífsins. Þannig að hann pakkaði saman og flutti frá Amsterdam í hafnarborgina, Brighton í Bretlandi þar sem hann gaf út þriðju smáskífuna sína, Youthful Hearts. Eftir hálft ár í Brighton sneri síðan Axel aftur heim til Íslands þar sem hann kláraði að semja fyrstu breiðskífuna sína You Stay By the Sea.

Árið 2019 skrifaði Axel undir útgáfusamning við bandaríska indí-útgáfufyrirtækið Nettwerk Music Group sem gefa nú út fyrrnefnda You Stay by the Sea. Platan spannar þetta ferðalag sem Alex hefur verið á undanfarin ár og leit hans að einhvers konar innri friði. Platan var tekin upp í London og Rockfield í Wales sumarið 2019. Upptökustjórinn var Ian Grimble sem hefur tekið upp listamenn eins og The 1975, Daughter og Mumford and Sons. Hann lagði fram þennan mjúka, hlýja hljóðheim sem platan situr í og Axel fékk liðsmenn hljómsveitar sinnar Hafstein Þráinsson og Hollendingana Ruben og Julius til að leika með sér á plötunni. Á plötunni er það síðan sjórinn sem er aðal yrkisefnið og innblásturinn, því að sögn Axels túlkar sjórinn svo margar tilfinningar með því að breytast sífellt eins og veðrið eða skapið í okkur.

You Stay By the Sea er fyrsta plata Axel Flóvent í fullri lengd og jafnframt plata vikunnar á Rás 2, hún verður spiluð í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld ásamt kynningum Axels og er jafnframt aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Nettwerk Music Group - You Stay By the Sea
Axel Flóvent - You Stay By the Sea