Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ákæra til að halda Trump fjarri opinberum embættum

epaselect epa08925402 Micah Wedemeyer holds a sign calling for the impeachment of US President Donald J. Trump, during a small protest in the aftermath of the US Capitol being stormed by Trump's supporters, in Atlanta, Georgia, USA, 07 January 2021.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Demókratar á Bandaríkjaþingi, undir forystu Nancy Pelosi, eru staðráðnir í að ákæra Donald Trump forseta fyrir embættisglöp enda beri hann ábyrgð á árás áhangenda sinna á þinghúsið síðastliðinn miðvikudag.

Nokkur hópur þingmanna Repúblikana styður þá fyrirætlan. Meðal ástæðna fyrir því að ákæra, segja sérfræðingar, er svo komist verði hjá því að hann geti gegnt nokkru opinberu embætti framar. 

Víða hefur fólk safnast saman á götum úti og krafist þess að forsetinn verði ákærður. Reglur öldungadeildar Bandaríkjaþings valda því þó, að varla verður hægt að hefja réttarhöld yfir Trump fyrir 19. janúar. 

Pat Toomey, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, kveðst ekki viss um að það standist stjórnarskrá að rétta yfir forseta fyrir embættisglöp eftir að kjörtímabili hans lýkur.

Toomey hefur hins vegar hvatt Trump til að segja af sér embætti nú þegar. Fleiri þingmenn Repúblikana taka undir þá kröfu. Demókratar hafa jafnframt kallað eftir því að Mike Pence varaforseti sjái til þess að forsetanum verði vikið frá embætti á grundvelli 25. viðauka stjórnarskrárinnar.

AFP fréttastofan greinir frá því að Trump sjálfur hafi verið harla þögull undanfarna daga, lítið hafi verið um yfirlýsingar frá honum og ekkert um blaðamannafundi.

Samfélagsmiðillinn Twitter hefur lokað á Trump með þeim rökum að hann gæti beitt miðlinum til að hvetja til ofbeldis. AFP segir Trump ætla að halda til Texas á þriðjudaginn til að leggja áherslu á fyrirætlanir sínar um að reisa múr við landamærin sem halda á flóttafólki frá Mexíkó fjarri.

Verði af ákæru fyrir embættisglöp á hendur Donald Trump verður það í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna að sami forseti sé ákærður tvisvar.