
Ákæra á hendur Trump kynnt
Demókratar með Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildarinnar í fararbroddi virðast með því að leggja fram drög að ákæru reyna að stilla Mike Pence upp við vegg. Ef Pence nýtti ekki viðaukann til að setja Trump úr embætti myndu Demókratar undirbúa ákæru. Tillaga um að skora á Pence að gera það var lögð fram fyrir þingið og var hart lagt að Repúblíkönum að styðja hana. Til að hún hefði hlotið brautargengi í dag hefði þurft að samþykkja hana samhljóða en þingmaður Repúblíkana mótmælti eins og við var búist. Því verðgreidd atkvæði um hana á morgun.
En samhliða var lögð fram tillaga að ákæru á hendur Trump fyrir að hvetja til ofbeldis gegn bandarískum stjórnvöldum. Hann hafi sett fram staðlausar fullyrðingar um kosningasvindl, hvatt fólk til að safnast saman við þinghúsið og grípa til aðgerða án fordæma til að stöðva talningu atkvæða kjörmanna sem þá átti sér stað.
Ef tillagan um að skora á Pence að virkja umrætt ákvæði verður samþykkt verður það engu að sóiður undir Pence komið hvort hann geri það. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að hann sé á móti því. Ef staðan verður þannig verður ákæran á hendur Trump lögð fram og rædd í fulltrúadeildinni á miðvikudag. Það er allt eins líklegt að ákæran verði afgreidd strax þá, og næsta skref væri þá að réttað yrði í málinu í öldungadeildinni. Það verður þó ekki gert strax.