Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja að stjórnvöld tryggi nýliðun með aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Samtök ungra bænda gagnrýna harðlega að í nýrri matvælastefnu Íslands sé ekki að finna aðgerðir til að tryggja nýliðun í bændastétt. Þá finnst samtökunum vanta áherslu á innlenda matvælaframleiðslu. Frestur til að skila umsögnum um stefnuna rennur út á morgun.

 

Matvælastefnunni er ætlað að verða leiðarljós fyrir stjórnvöld næstu árin. Meðal annars er þar lögð áhersla á verðmætasköpun, sjálfbærni og lýðheilsu og að neytendur fái aukinn aðgang að upplýsingum um matvæli sem þeir neyta.

Stefnan er nú í samráðsgátt stjórnvalda og frestur til þess að senda inn umsagnir rennur út á morgun 11. janúar. Fimm umsagnir hafa borist og er umsögn Samtaka ungra bænda þar á meðal.

Hafa áhyggjur af innflutningi

Samtökin lýsa  yfir ánægju sinni með stefnuna í heild og markmið um aukna nýliðun í bændastétt fyrir árið 2030 en gera alvarlegar athugasemdir við að engar aðgerðir séu í stefnunni til að auðvelda nýliðum að hefja búskap. Í dag skorti fjármagn í nýliðunarstuðning. Samtökin leggja líka áherslu á að stjórnvöld tryggi stöðugleika í umhverfi framleiðenda, það sé meginforsenda þess ða hægt sé að tryggja matvælaöryggi á neyðartímum. Þarna þurfi að huga sérstaklega að því að stjórna innflutningi á erlendri matvöru, en innflutningu rá kjöti hafi leitt til lækkunar á afurðaverði til íslenskra bænda. „Ekki er svo auðvelt að grípa í klárinn og auka framleiðsluna á ný þegar eftirspurn eykst,“ segir í umsögninni.

Vilja áherslu á innlendan mat

Í stefnunni er minnst á að börn fái hollan mat í skólamötuneytum, þarna finnst samtökum ungra bænda að nefna mætti sérstaklega hollan innlendan mat. Aðrar umsagnir sem bárust lúta til dæmis að því að auka vægi lífrænnar framleiðslu í stefnunni og auka aðgengi neytenda að upplýsingum um hvernig eldislax sem þeir kaupa er alinn. 
Matvælastefna Íslands á að vera opið ferli, og stjórnvöld segja að hún eigi eftir að taka mið af þróun og breytingum næstu ára. Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun sem verður endurskoðuð að fimm árum liðnum.