Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Veikindi heilbrigðisstarfsfólks hægja á bólusetningu

10.01.2021 - 12:17
epa08924916 A patient is brought into the Royal London Hospital, in London, Britain, 07 January 2021. Britain's National Health Service (NHS) is coming under severe pressure as COVID-19 hospital admissions continue to rise across the United Kingdom. Some 1,000 people are dying each day from the disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bretum miðar hægt að hemja faraldurinn og veikindi heilbrigðisstarfsfólks farin að hægja á bólusetningu. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Breta, segir til skoðunar að herða aðgerðir enn frekar.

Aðgerðir yfirvalda í Bretlandi til að bregðast við fjölgun smita eru með þeim hörðustu í heimi. Þar er útgöngubann og íbúar mega aðeins fara út eftir nauðsynjum, til vinnu ef þeir geta ekki unnið að heiman, eða til að hreyfa sig í nágrenni heimilisins. Þær tóku gildi fjórða janúar en virðast ekki enn hafa skilað árangri. Hancock segir að það komi til greina að herða aðgerðirnar því ástandið innan heilbrigðiskerfisins sé grafalvarlegt.

Nærri tvær milljónir hafa látist vegna sjúkdómsins en bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa yfirvöld mestar áhyggjur af því hversu margir hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús það sem af er nýja árinu. Heilbrigðiskerfið ræður illa við hraða fjölgun smita og formaður bresku læknasamtakanna segir í bréfi til félagsmanna í dag að veikindi heilbrigðisstarfsfólk séu farin að hafa áhrif á bólusetningar. Hátt í fimmtíu þúsund heilbrigðisstarfsmenn eru núna með Covid-19 og þau veikindi farin að hafa áhrif. Um 200 þúsund manns eru bólusettir daglega, en heilbrigðisstarfsfólk á í fullu fangi með að sinna þeim sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús með sjúkdóminn. Þegar svo er, er ekki nægur mannskapur til að bólusetja. Veikindi heilbrigðisstarfsfólks eiga því líklega eftir að hafa áhrif á metnaðarfullt markmið breskra stjórnvalda, að takast að bólusetja um fimmtung bresku þjóðarinnar fyrir miðjan febrúar og alla fullorðna Breta í haust.