„Þetta átti að vera ball númer 125“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

„Þetta átti að vera ball númer 125“

10.01.2021 - 17:40

Höfundar

125 ára gömul hefð hefur verið rofin á Fáskrúðsfirði. Það gerðist í gær, þegar ekkert hjónaball var haldið eins og til stóð vegna sóttvarnareglna. Formaður Hjónaballsnefndar segir að bæjarbúar hafi tekið þessu með jafnaðargeði og séu strax farnir að hlakka til þess þegar ballið verður haldið að ári.

Hjónaballið á Fáskrúðsfirði hefur verið haldið á hverju ári frá árinu 1896 og er jafnan stærsta skemmtun ársins í bænum. Það hefur staðið af sér frostaveturinn mikla og tvær heimstyrjaldir en þurfti nú að lúta í lægra haldi fyrir kórónuveirunni. 

„Þetta átti að vera ball númer 125 og við ákváðum það í endaðan nóvember að blása þetta af í ljósi aðstæðna,“ segir Sigurveig Agnarsdóttir formaður Hjónaballsnefndar.

Hún segir að Fáskrúðsfirðingar hafi látið sér þetta vel lynda. „Það var mjög góður skilningur á öllu og allir sammála og sáttir. Við sáum það í hendi okkar að þetta yrði svolítið erfitt - við erum 200 manns sem mætum á þessa samkomu og þarna er matur og skemmtun og allt mögulegt. Við sáum að þetta var ekki að ganga.“

Sigurveig segist ekki vita til þess að ballið hafi fallið niður áður í 125 ára sögu þess. „ Eftir því sem mér segir fólk þá hefur það ekki gerst. Það verður bara tvöfalt hjá okkur næst. Við ákváðum að halda það bara í janúar á næsta ári.“

Það er hefð fyrir því á Fáskrúðsfirði að tala um Hjónaballsveður en þar er átt við að jafnan er slæmt veður þegar ballið er haldið. Vonskuveður var á svæðinu í gær og Sigurveig segir að hugsanlega hafi gleymst að láta veðurguðina vita að ballinu hefði verið aflýst. „Þetta var ekta Hjónaballsveður,“ segir hún.