
Páfinn: „Sjálfseyðandi afneitun" að hafna bólusetningu
Í viðtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Canale 5 mælir páfi eindregið með því að fólk fari í bólusetningu gegn COVID-19 og segir andstöðu við það „sjálfseyðandi afneitun, sem ég kann enga skýringu á, en núna verðum við að láta bólusetja okkur."
Siðferðisspursmál sem snýst ekki bara um líf okkar sjálfra
Í viðtalinu, sem sent verður út í heild sinni í dag, sunnudag, bendir hann á að bólusetningin miði ekki einungis að því að vernda líf þess sem bólusettur er, heldur einnig og ekki síður líf annarra. „Út frá siðferðislegum sjónarmiðum tel ég að allir ættu að láta bólusetja sig," segir Frans.
„Þetta er siðferðislegt val, því þú ert að leggja heilsu þína og líf að veði, og líf annarra um leið." Páfi, sem er 84 ára gamall, segir að þegar sé búið að tryggja nægt bóluefni til að bólusetja alla íbúa Páfagarðs, sem eru um 450 talsins, og að hann eigi sjálfur bókaðan tíma í vikunni.