
Öldungadeildarþingmenn hvetja Trump til afsagnar
AP-fréttastofan segir frá því að öldungadeildarþingmennirnir Pat Toomey fyrir Pennsylvaníu og Lisa Murkowski fyrir Alaska vilji að forsetinn „lýsi yfir afsögn og hverfi á braut hið snarasta." Flokksfélagar þeirra í fulltrúadeildinni, þeirra á meðal Adam Kinzinger, hafa tekið undir þá kröfu í dag.
Pat Toomey var í viðtali við Chuck Todd í þættinum Meet the Press á NBC sjónvarpsstöðinni þar sem hann sagði brotthvarf forsetans vænlegustu lausnina fyrir Bandaríkin. Hann sagðist þó telja ólíklegt að forsetinn gerði nokkuð slíkt en það væri þó besta lausnin.
Murkowski hefur lengi látið uppgjöf sína á embættisfærslum forsetans í ljós og sagði í samtali við dagblaðið Anchorage Daily News að hann yrði að láta af störfum. Hún var fyrst öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins til að krefjast þess.
Toomey segist þess fullviss að Trump hafi stuðlað að áhlaupi stuðningsfólks síns á þinghúsið og því sé eðlilegt að ákæra hann til embættismissis. Hann telur þó tímann til ákæru vera orðinn harla nauman, enda aðeins tíu dagar þar til Joe Biden tekur við embætti.
Forystufólk í fulltrúadeildinni er ákveðið á að láta á ákæru reyna og Nancy Pelosi, forseti deildarinnar, bað þingmenn að vera viðbúna að snúa til Washington í vikunni úr stuttu leyfi sínu.