Og þá var slegist, reykt og slúðrað í höllinni

Mynd: Netflix / Netflix

Og þá var slegist, reykt og slúðrað í höllinni

10.01.2021 - 10:00

Höfundar

„Fyrir þá sem dáðu Disney-prinsessur, söfnuðu pónýhestum, glansmyndum eða postulínsdúkkum er þetta kærkomin nostalgía um hinn fullkomna þykjó-heim mömmóleikjanna.“ Júlía Margrét Einarsdóttir rýnir í sjónvarpsþættina Bridgerton, pólitískt kórrétt búningadrama frá Netflix, um ástir og örlög fína og fjölbreytta fólksins í London á 19. öld.

Árið er 1813 og við erum stödd í London fallega og ríka fólksins. Þau búa í höllum, drekka te úr fínasta postulíni, fá þjónustufólk til að krulla á sér hár eða raka barta, klæðast silkiskyrtum og vestum eða litríkum glæsikjólum yfir vel aðskornu korselettinu.

Sviðsmyndin minnir um margt á hefðbundnar enskar períódur kóngafólksins og þó kannski heldur á tónlistarmyndband með poppdrottningunni Beyoncé. Sjónarspilið er stórbrotið, kristalsljósakrónurnar sveiflast, kjólarnir eru litríkir, demantsskart með stórum glitrandi steinum minnir um margt á vinsælt tískuskart sem selt var í Accessorize í Kringlunni upp úr aldamótum 2000.

Og þegar það er kátt í höllinni og það er stiginn dans sem allir kunna og hringsnúast glæsilega um salinn þá skína demantar og hvítar tennur. Uppstrílaðir hljóðfæraleikarar sem leika fyrir dansinum á strengjahljóðfæri en ekki víólukvintett Mozarts heldur nútímalög eftir poppstjörnur á borð Ariönu Grande og Taylor Swift í fiðluútsetningu. Allir dansa dansinn en svo fer fólk afsíðis í sígópásu. Samt erum við kirfilega stödd í gamladaga. Fyrir alla sem eitt sinn dáðu Disney-prinsessur, söfnuðu pónýhestum, glansmyndum eða postulínsdúkkum er þetta kærkomin nostalgía um hinn fullkomna þykjó-heim mömmóleikjanna.

Við lítum inn hjá fjölskyldunni sem sagan hverfist um, Bridgertonfjölskyldunni, og það er ljóst að það stendur mikið til, það þarf að finna alla fallegustu kjólana, fínasta skartið og þjónustufólkið þarf að setja í hár kvennanna stærstu rjómatertugreiðsluna.

Rómans, kóngafólk og erótík

Svona hefst glænýtt amerískt og dísætt rómantískt períódudrama sem Netflix frumsýndi um hátíðirnar. Bridgerton-þættirnir eru eftir Chris Van Dusen og framleiddir af framleiðsludrottningunni Shondu Rimes. Þeir eru byggðir á geysivinsælli bókaröð Juliu Quinn um ólíka meðlimi hinnar bresku hástéttarfjölskyldu Bridgerton og leit systkinanna að því sem mestu máli skiptir þau í lífinu, sannri ást. Bækurnar komu út á árunum 2000-2013 og hafa gert allt vitlaust hjá þeim fjölmörgu lesendum sem elska rómans, kóngafólk og jafnvel svokallaða fan-fiction erótík. 

Nú á mamma að pimpa stúlkunum út

Lafði Bridgerton, eða mama eins og þær eru allar kallaðar, er auðug ekkja sem á fjórar dætur og fjóra syni sem hún hefur alið upp ein. Og nú er komið að þeim merkisviðburði að nú á að pimpa stúlkum á vissum aldri út til álitlegra, vel stöndugra vonbiðla sem hafa gott orðspor í samfélaginu. Fyrst í röðinni er hin fagra Daphne og þá skal bregða henni í alfínasta kjólinn og fara með hana á fund drottningar sem er æðsta yfirvald landsins, þangað sem fagrar snótir í sínu besta pússi mæta með þá einu ósk að vera nógu glæsilegar og sætar til að hún bekenni þær sem úrvalskvonfang. Og viti menn, samkvæmt drottningunni eru margar ómögulegar en engin eins fögur og Daphne okkar. Hvílík gæfa. Hún er orðin verðmætasti gripurinn á svæðinu og allar hinar eru grænar af öfund.

Þetta hljómar auðvitað allt eins og úrelt Disney-kvikmynd frá því þeim var enn stungið í VHS-tæki og ég viðurkenni að á meðan ég horfði á þessar fyrstu senur sótti að mér uggur yfir því að það væru sjö þættir eftir af þessari þvælu.

Hver er skríbentinn?

Svo er á ferðinni, líkt og í Gossip Girl þáttunum sálugu, slúðurpési sem kemur reglulega út og segir frá því helsta í tilhugalífi fína fólksins. Hann veitir aðhald í prinsessubæ því allir óttast hina þöglu ógn, og að verða uppvísir að einhverjum óskunda eins og að stúlkur sjáist einar á ferð með karlmanni utan fjölskyldunnar sem hefur í för með sér eilífa smán. Ekkert fer framhjá slúðurfréttamiðlinum Lady Whistledown. Enginn veit hver lafðin er en hún virðist hafa heimildarmenn og augu alls staðar svo allir eru grunaðir. 

Stelpur slúðra og strákar slást

Það er henni til happs að þó stúlkurnar séu fallegar og prúðar eru þær slóttugar þegar þær taka við að slúðra því pískur og mas er þeirra helsta vopn gegn óvinum í samfélaginu. Strákarnir nota heldur hnefana auk þess sem eina leiðin fyrir marga þeirra til að tala um tilfinningar er á meðan þeir slást. Annars er auðvitað ekki boðlegt fyrir stæltan fýr að fara á trúnó við vini sína. 

Fyrir alla þá sem finna tvær grímur renna á sig núna, ég skil ykkur en bið ykkur samt að staldra aðeins við með mér, og ekki gefa þættina endilega alveg upp á bátinn.

Reynir að þvinga systur sína í hjónaband með einum eldri og ógeðfelldum

Söguhetjan okkar hún Daphne leitar sér sem fyrr segir að herramanni sem líst nógu vel á hana til að kvænast henni. Þar sem faðir hennar er látinn kemur það í hlut bróður hennar að samþykkja eða afþakka ástir vonbiðlanna fyrir hennar hönd. Í fyrstu standa þeir í röðum en fyrir hans tilstilli hrökklast auðugir yngissveinar á brott.

En þá gerist annað nokkuð vafasamt; bróðirinn ákveður í stjórnsemisfrekjukasti að Daphne skuli giftast miklu eldri og viðbjóðslega ógeðfelldum manni. Og vegna þess að hann er elsti karlmaður heimilisins er ákvörðunin hans, sama hvað nánast barnung systir hans mótmælir ráðahagnum í örvæntingu. 

Aðeins skelfing og glæpur gæti gert hana ólétta með honum

Slíkri skelfilegri grimmd bróðursins er erfitt að horfa fram hjá og það skánar ekki þegar móðirin, harmi slegin yfir því sem bíður dótturinnar, reynir að hughreysta hana með því að minna á hve ánægð hún verði þegar þau eignist börn saman. Því til þess að þessi unga stelpa eignist börn með mun eldri manni sem ber enga virðingu fyrir henni og henni gjörsamlega býður við, þarf nokkuð skelfilegt og glæpsamlegt að eiga sér stað. Það var nokkuð truflandi að horfa upp á.

Hann vill ekki eignast fjölskyldu, hún vill ekkert frekar

Til þess að komast hjá þessum örlögum sínum finnur hún ríkan og valdamikinn ungsvein, Simon, á hennar reki sem auk þess að vera yfirburðahuggulegur eins og hún sjálf, er hertogi. En hann vill ekki kvænast og er orðinn þreyttur á athyglinni svo þau gera með sér samkomulag um að þykjast fella hugi saman til að bjarga Daphne frá gamla ógeðismanninum og losa Simon við tilboðin sem hann hefur ekki áhuga á. Nú geta margir getið sér til um hvaða tilfinningar hinn bældi fallegi hertogi og hin fagra Daphne munu þróa með sér og hvílíkar flækjur samskipti þeirra hafa í för með sér þar sem hann hefur heitið því að giftast aldrei en hún vill ekkert frekar.

Femínistar, fjölbreytni, samkynja ástir og sterkar konur

Þó gildismat og hefðir séu stundum átakanlega gamaldags hefur ýmislegt verið nútímavætt í þessari sögu sem gerir hana frábrugðna hefðbundnu Disney-sögunni um hina bljúgu prinessu og hinn hugrakka prins. Þarna er til dæmis sígildur karakter, næstelsta systirin, Eloise, sem minnir um margt á Elizabeth í Hroka og hleypidómum Jane Austen eða Jo í Yngismeyjum Louisu May Alcott. Hana þyrstir meira í menntun og frelsi en hjónaband og barneignir og skammast yfir púkalegum feðraveldishefðum.

Hún er femínisti sem skilur ekki þrá eldri systur sinnar til að vera fögur, heilla menn, stofna fjölskyldu og verða móðir og sýnir því að það er hægt að vilja annað í lífinu.

Svo eru hinir fjölmörgu karakterar af ólíkum kynþáttum án þess að það hafi nokkur áhrif á stétt eða stöðu þeirra í virðingarstiganum. Og þó það megi telja ljóst að samkynja ástir séu ekki viðurkenndar eða gúteraðar af fína fólkinu og hennar hátign fáum við sannarlega að sjá að þær eru til og fá þær að dafna í myrkum skúmaskotum. Þegar á reynir kemur líka í ljós að konurnar eru mun sterkari en þær virðast í byrjun og þegar karlmennirnir klúðra taka þær málin í sínar hendur.

Snyrtilega gert en skilur ekkert eftir sig

Það sem gerir þessa þætti ágæta er margt. Persónugalleríið er á allan hátt litríkt og allar persónur hafa skýra stefnu og áhugaverða baksögu. Áhorfandinn fær strax tilfinningu fyrir því hver er hver án þess að þær verði eintóna og fyrirsjáanlegar. Endurliti til fortíðar er aldrei komið fyrir til að fara inn á vafasama dýpt en rekur stefnulaust út á haf og langt frá sögunni án tilgangs, eins og oft verður þegar handritshöfundar fara fram úr sér í æsingnum. Áhorfandi er mataður á upplýsingum svo allt verður auðmeltanlegt en þó ekki um of með óþarfa endurtekningum.

Nei, það er þrátt fyrir umgjörðina, allt snyrtilega gert þó sagan skilji ekkert eftir sig. Hún er enda ekki nema afþreying sem á tæpast að vera lykill að leyndardómi lífsins og þykist ekki ætla að vera það.

Svona ferðu til Selfoss og gerir það með stæl

Eftir að hafa horft á þættina flugu mér í hug orð uppáhaldskennarans míns sem sagði mér og öðrum ritlistarnemum að þegar verið væri að gera listaverk væri um að gera að skjóta til tunglsins, en mikilvægt að sætta sig líka við að lenda til dæmis ekki lengra frá Reykjavík en á Selfossi. Því þá komst maður þó til Selfoss í stað þess að gera ekkert.

En svo eru sumir sem reyna við tunglið en skransa út í tjörn, brotlenda í drullupolli eða í ruslaporti. Mér finnst sem þessir þættir, sem eru frekar afþreying en mikið listaverk, hafi ekki ætlað sér mikið lengra en til Selfoss en hafi tekist að taka Selfoss, þann ágæta stað, með stæl.

Kom við á Bókakaffinu, fór í sund, fékk sér pulsu í Pulló og endaði vel heppnaðan og huggulegan dag í drykk á kaffi Krús. Prýðisgott ferðalag og dansinn dunaði hjá drottningu.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Hvað verður um greyið gaslýsandi ofbeldismanninn?

Sjónvarp

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar

Sjónvarp

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta