Oddný: „Tímasetningin ekki til að auka traust“

10.01.2021 - 12:31
Mynd: Skjáskot / RÚV
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, segist ekki hafa átt von á því að hlutir í Íslandsbankanum yrðu seldir við þessar aðstæður. Hún segir ekki tilviljun að ákvörðunin skuli hafa verið tilkynnt skömmu fyrir jól og sú tímasetning sé ekki til þess að auka traust. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir þetta hafa legið fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar; að draga skyldi úr eignarhaldi í fjármálakerfinu.

Greint var frá því í fréttum fyrir jól að fjármálaráðherra hefði fallist á tillögur Bankasýslunnar um selja fjórðungshlut í Íslandsbanka á þessu ári. Ágóðann á meðal annars að nota til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.  

Greinargerð ráðherrans var birt þann 22. desember og Oddný segir þessa tímasetningu ekki vera neina tilviljun, hún hafi verið valin til að umræðan yrði ekki mikil.  Hún hefur óskað eftir sérstakri umræðu um söluna á Alþingi þann 18. janúar. „Ég átti ekki von á því að hlutir í bankanum yrðu seldir núna við þessar aðstæður.“

Hún veltir því fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að selja banka á undirverði. Miklu nær væri að skapa svigrúm til að greiða út arð en að selja hluti við þessar aðstæður. „Við eigum alls ekki að selja.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að það hafi legið fyrir í stjórnarsáttmálanum að draga ætti úr eignarhaldi í fjármálakerfinu sem væri hvergi jafn mikið og hér. Það væri mikill fórnarkostnaður að binda 340 milljarða í efnahagsreikning.  „Við erum að auka skuldir ríkissjóðs við þessar aðstæður og það er því skynsamlegt að losa um þetta fé og lækka skuldir.“

Landsbankinn yrði áfram í eigu ríkisins en farið yrði í opið skráningarferli með Íslandsbanka sem hann teldi afar skynsamlegt við þessar aðstæður.

Hægt er að horfa á umræðuna í spilaranum hér að ofan.