Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafa fundið líkamsleifar og brak úr vélinni sem fórst

10.01.2021 - 07:07
epa08929574 Indonesian Navy divers recover debris during a search and resque operation near the suspected crash site of Sriwijaya Air flight SJ182 in the waters off Jakarta, near Tanjung Priok port in Jakarta, Indonesia, 10 January 2021. According to an airline spokesperson, contact to Sriwijaya Air flight SJ182 was lost on 09 January 2021 shortly after the aircraft took off from Jakarta International Airport while en route to Pontianak in West Kalimantan province. A search and rescue operation is under way.  EPA-EFE/Bagus Indahono
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Björgunarsveitir hafa fundið líkamsleifar og brak úr farþegaþotu indónesíska flugfélagsins Sriwijaya, sem hrapaði í Javahaf skammt undan ströndum höfuðborgarinnar Jakarta í gær. Þá hafa leitarmenn numið boð frá neyðarsendi vélarinnar og er flaksins leitað út frá þeim. 

Farþegaþotan hrapaði í hafið skömmu eftir flugtak í Jakarta í gær. 62 voru um borð, þar á meðal 10 börn. Gögn flugumferðarstjórnar sýna að vélin, 26 ára gömul Boeing 737-500 vél, tók snarpa dýfu um það bil fjórum mínútum eftir að hún tók á loft frá Soekarno-Hatta-alþjóðaflugvellinum í Jakarta.

Umfangsmikil leitar- og björgunaraðgerð hefur staðið yfir frá því að vélin hrapaði og stendur enn. Fjöldi her- og strandgæsluskipa, þyrlur og kafarar í stórhópum voru send á vettvang, nærri vinsælum ferðamannaeyjum skammt frá höfuðborginni.

Vélin var á leið til borgarinnar Pontianak á indónesíska hluta eyjunnar Borneó. Hún var komin í nær 11.000 feta hæð þegar hún tók dýfuna og lækkaði niður í 250 fet á innan við mínútu áður en hún hvarf af ratsjám og samband rofnaði við flugumferðastjórn, samkvæmt vefsíðunni FlightRadar24. Í frétt AFP segir að hvorki yfirvöld né talsmenn flugfélagsins hafi gefið nokkuð upp um mögulegar orsakir slyssins.