Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Eurovision-keppendur gætu þurft að styðjast við upptöku

Mynd með færslu
 Mynd: Baldur Kristjánsson - RÚV

Eurovision-keppendur gætu þurft að styðjast við upptöku

10.01.2021 - 08:52

Höfundar

Skipuleggjendur Eurovision í Rotterdam eru staðráðnir í að halda keppnina í maí þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn sé í örum vexti á meginlandi Evrópu. Notuð verður upptaka af framlagi viðkomandi ef hann getur ekki ferðast til Hollands eða hefur orðið útsettur fyrir smiti þar.

Þetta kemur fram á vef BBC. Eurovisionkeppnin var slegin af á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins. Þótt ástandið í Evrópu nú sé nánast slæmt og það var þá segja skipuleggjendurnir að keppnin verði haldin, sama hvað. „Við getum staðfest að keppnin mun sannarlega fara fram,“ segja þeir í skriflegu svari við fyrirspurn BBC.

Graham Norton, sem hefur lýst keppninni á BBC, sagði í útvarpsviðtali við bandaríska útvarpsstöð að forsvarsmenn keppninnar ætli að vera með vaðið fyrir neðan sig. Komist keppandi ekki til Hollands „verður honum gert kleift að „Zooma“ framlag sitt.“ Norton efaðist einnig um það í viðtalinu að það yrðu 20 þúsund áhorfendur í sal, eins og jafnan er þegar Eurovision er annars vegar.

Skipuleggjendurnir segja í svari sínu til BBC að inntakið í ummælum Nortons sé rétt. Í stað þess að flytja lagið í beinni útsendingu frá heimalandi sínu verði notast við upptöku af flutningi þess.  Þessu úrræði verði þó eingöngu beitt ef keppandi getur ekki ferðast til Rotterdams eða hefur orðið útsettur fyrir smiti þar.

Sjónvarpsstöðin sem sendir viðkomandi keppanda verður að fylgja ströngustu reglum þegar hún aðstoðar flytjandann við upptökuna til að tryggja að allir keppendur sitji við sama borð.  Þær kveða skýrt á um að upptakan verði að fara fram í rauntíma og að ekki megi lagfæra söng eða klippa atriðið til þegar upptöku er lokið.

Daði Freyr semur framlag Íslands í ár en margir höfðu spáð lagi hans, Think about things, sigri í keppninni sem síðan var aflýst. Nýja lagið verður frumflutt í mars.