Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enginn niðurskurður þrátt fyrir hallarekstur

10.01.2021 - 19:15
Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir rekstur sveitarfélaga hafi tekið miklum breytingum til hins verra eftir að faraldurinn hófst. Bærinn hafði áður reiknað með allt að fjögur hundruð milljóna króna afgangi á þessu ári en nú stefnir halla upp á rúman hálfan milljarð.

 

Átta af tíu stærstu sveitarfélögum landsins reikna með hallarekstri á þessu ári samkvæmt fjárhagsáætlunum. Aðeins Akranes og Fjarðabyggð gera ráð fyrir að reksturinn skili afgangi.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir að tekjustofnar sveitarfélaga hafi dregist saman eftir að faraldurinn hófst.

„Við erum búin að stilla upp fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir rúmum hálfum milljarði í halla. Við höfðum gert ráð fyrir þrjú, fjögur hundruð milljónum í afgangi. Þetta er töluverður viðsnúningur frá því sem við höfðum gert ráð fyrir, það er engin launing á því,“ segir Haraldur.

Hann segir að bærinn ætli ekki að grípa til niðurskurðar.

„Við erum frekar í hina áttina. Við erum að auka þjónustuna og einhverju leyti reyndar að lækka gjaldskrá. Til að mynda eru leikskólagjöld að lækka hjá okkur. En tekjurnar fara niður og svo erum við að halda óbreyttri áætlun, og kannski rétt rúmlega það í fjárfestingum. Við erum að fjárfesta hér í Mosfellsbæ fyrir 2,5 milljarð í mjög ört stækkandi sveitarfélagi. Það þarf fyrst og fremst að taka lán fyrir þeim framkvæmdum og breytir þá stöðunni hvað það varðar,“ segir Haraldur.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sagt að staðan kallaði á frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Haraldur segir að þær aðgerðir sem ríkið hefur þegar gripið til hafi hjálpað sveitarfélögunum en telur að meira þurfi til.

„Við höfum sagt það mörg að það gæti verið skynsamlegra fyrir ríkið og þá hið opinbera að ríkið styddi með beinum framlögum betur við sveitarfélögin svona á meðan þetta er að ganga yfir,“ segir Haraldur.